Bækur

Bækur.is - stafræn endurgerð íslenskra bóka.

Ritakostur Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns telur nú tæplega milljón eintök af ýmsu tagi. Ritum safnsins er raðað eftir Dewey-flokkunarkerfinu. Þau eru jafnframt skráð í samskrá íslenskra bókasafna sem er að finna á Leitir.is.

Fræðirit, fagurbókmenntir og rit almenns efnis á ýmsum tungumálum er flest að finna á fjórðu hæð. Þar er einnig námsbókasafn með ritum sem eru frátekin vegna notkunar í námskeiðum. Á annarri hæð safnsins, þar sem gengið er inn, er sérstök deild fyrir handbækur og uppsláttarrit ásamt tölvum þar sem hægt er að fletta upp í Leitir.is. Þjónustuborð veitir nánari upplýsingar um ritakost og aðstoðar notendur. Á fyrstu hæð (gengið niður stiga) eru handritasafn og Íslandssafn þar sem hægt er að panta íslensk útgefin rit notkunar á lestrarsal.

Rafrænn aðgangur að heildartextum náms- og fræðirita verður sífellt mikilvægari. Í Áttavitanum er að finna tengla á gagnasöfn og ýmis söfn rafrænna bóka sem safnið greiðir fyrir aðgang að.

Námsbókasafnið

Kennarar geta, í tengslum við námskeið sem þeir kenna, beðið um að ákveðin rit verði sett í námsbókasafnið. Meðan á námskeiði stendur eru viðkomandi rit ýmist til notkunar á staðnum eða lánuð í einn til sjö daga. Námsbókasafn er staðsett á 4. hæð safnsins. Þar er einnig aðstaða til að geyma ljósritað lesefni sem tengist námskeiðunum.

Netfang námsbókasafns er namsbokasafn@landsbokasafn.is.

Handbækur

Á handbókarými safnsins á 2. hæð eru bindi handbóka og uppsláttarrita af ýmsum toga: alfræðirit, orðabækur, Alþingistíðindi, Stjórnartíðindi, laga- og dómasöfn, s.s. íslenskt Lagasafn og Hæstaréttardómar, kortabækur, bókaskrár og tilvísanarit á ýmsum sérsviðum, svo dæmi séu nefnd. 

Á 3. og 4. hæð eru einnig algengustu orðabækur og fleiri handbækur til notkunar þar. Í tón- og myndsafni á 4. hæð er gott safn uppsláttarrita um tónlist. Í lestrarsal á 1. hæð eru handbókasöfn sem tengjast efni handritasafns og Íslandssafns. Í útibúi í Lögbergi eru uppsláttarrit á sviði lögfræði.


 

Ritakaup

Safnið sér um innkaup á ritum fyrir ritakaupasjóð H.Í. samkvæmt óskum kennara. Nemendur, fræðimenn og aðrir notendur safnsins geta einnig komið með uppástungur um ritakaup með því að fylla út þar til gert eyðublað.

 

Gjafir

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn tekur við bókagjöfum sem styrkja bókakost safnsins og eru í samræmi við bókakaupastefnu þess. Þeir sem vilja gefa bækur þurfa áður en til þess kemur að hafa samband við þjónustusvið safnsins.