Handritasafn

Í handritasafninu eru varðveitt um 15 þúsund handrit allt frá einstökum skinnblöðum frá 13. öld eða eldri og fram til dagbóka og bréfa frá 20. öld. Megnið af handritakostinum eru pappírshandrit, flest frá 19. og 20. öld, en einnig fjölmörg frá 17. og 18. öld.

Saga handritasafns

Upphaf handritasafns Landsbókasafns Íslands eru kaupin á handritasafni Steingríms Jónssonar og Valgerðar Jónsdóttur árið 1846. Í safni þeirra voru, auk eigin verka, einkum gögn frá þeim langfeðgum Hannesi, Finni og Jóni Halldórssyni. Handritasafn Landsbókasafns (safnmark: LBS) óx hægt en alltaf tíndist eitthvað inn, sérstaklega eftir að Jón Árnason bókavörður gaf út kver árið 1862 og hvatti fólk til að efla safnið með því að koma með gögn þangað til varðveislu. Árið 1879 var handritasafn Jóns Sigurðssonar keypt en það innihélt 1.342 handritanúmer (JS). Í safni Jóns voru mörg merk handrit og þeirra merkast líklega eiginhandarrit Hallgríms Péturssonar að Passíusálmunum. Árið 1901 keypti safnið handritasafn Hins íslenska bókmenntafélags, Kaupmannahafnardeildar (ÍB) og Reykjavíkurdeildar (ÍBR), sem innihélt um 1.800 handritanúmer eða safnmörk. Fleiri handritasöfn fékk safnið til eignar á fyrri hluta 20. aldar og ennþá berast því heil söfn ásamt því að einstaklingar koma með eigin gögn eða forfeðra sinna til varðveislu. Í um 160 ár hefur handritasafn tekið við handritum Íslendinga til varðveislu.

Handritagögnin

Í vörslu handritasafns er stærsta safn íslenskra pappírshandrita og einkaskjala frá síðari öldum (16. öld til 20. aldar), eða 13.603 handrit og skjöl sem hafa verið skráð og fengið safnmark. Þessi handrit og skjöl geta verið allt frá lítilli bók til þúsunda blaðsíðna. Handritagögnin, sem eru í eftirtöldum söfnum: Lbs, JS, ÍB og ÍBR, taka um 360 hillumetra og fylla 1.769 öskjur. Í safninu eru jafnframt fimm skinnhandrit og rúmlega 100 skinnblöð. Til viðbótar eru um 2.000 einingar sem bíða fullnaðarskráningar og eru án safnmarks.

Lifandi safn

Safnkostur handritasafns er „lifandi", því sífellt er tekið á móti nýjum handritagögnum og þarf að gera ráð fyrir vaxandi safni hvað húsrými og almenna starfsemi varðar. Á síðustu 10 árum hefur verið tekið á móti u.þ.b. 700 handritagögnum. Þar sem að safnið er „lifandi" þarf að hafa samband við mögulega gefendur og hafa samstarf við þá um frágang og fyrirkomulag afhendinga. Komið hefur verið á skýru verkferli þar um, s.s. afhendingarsamningum og skýrum reglum um aðgengi og not. Slíkt er mikilvægt til að tryggja réttarstöðu sem eignarsafn og skyldur safnsins og gefenda.

Handritasafni hefur orðið verulega ágengt í söfnun efnis á undanförnum árum, enda hefur Landsbókasafni tekist, með samkomum og sýningum, að vekja athygli á þessum þætti í starfsemi sinni.

Efni og innihald

Skyldubundið hlutverk handritasafns er söfnun, varðveisla, skráning og rannsóknir íslenskra skjala og handrita sem ekki heyra undir lögbundin skylduskil til Þjóðskjalasafns eða héraðsskjalasafna. Í handritasafni er safnað einkagögnum, þ.e. öðrum gögnum en embættisskjölum. Tekið er á móti öllu efni einstaklinga og samtaka og er safnið ekki bundin af ákveðnu tímabili eða efni. Ekki er aðeins um að ræða handrit skálda, rithöfunda og fræðimanna, þjóðsögur og sagnir, heldur líka önnur gögn fólks af öllum stéttum, og má þar nefna æviminningar, ættartölur, ræðusöfn, dagbækur, sendibréf, gjörðabækur félaga eða samtaka, nótnahandrit tónskálda og margt fleira. Á síðustu árum hefur safnið tekið á móti miklu magni handrita frá rithöfundum, stjórnmálamönnum og stjórnmálahreyfingum eða -flokkum.

Umbúnaður og þjónusta

Safnið sér til þess að sem tryggilegast sé búið um safnkostinn og greiðir fyrir notkun hans, m.a. með útgáfu handritaskráa og með því að færa gögn á aðra miðla eftir þörfum. Skrár hafa fram til þessa verið prentaðar en verða framvegis eingöngu á rafrænu formi og er sú vinna nú þegar hafin.

Rafræn skráning og lýsing á handritagögnum er samkvæmt alþjóðlegum stöðlum (TEI P5) og í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Den Arnamagnæanske Samling. Markmiðið er samskrá um íslensk handrit, miðlun mynda og samkeyrsla við gögn annarra er varðveita handritagögn. Samskráin er gátt fyrir miðlun upplýsinga um handritakost safnsins og þar geta önnur handrita- og skjalasöfn lagt til upplýsingar um gögn í þeirra fórum. Skráningarformið er samstarf handritasafns, fyrrnefndra stofnana og annarra sviða í Landsbókasafni, s.s. upplýsingatæknihóps og skráningar. Lýsingar á handritum í vörslu safnanna eru aðgengilegar á vefsvæðinu: www.handrit.is. Skráning og úrvinnsla á gögnum í handritasafni er einnig í samvinnu við önnur erlend söfn og þá gegnum ENRICH verkefnið. Innan vébanda þess veita evrópsk söfn aðgang að lýsingum af handritum og myndum á netinu. Gögn handritasafns verða framlag til stafrænnar gáttar sem unnið er að. Safnið kemur einnig að endurgerð Sagnanetsins og þar verða birtar áfram stafrænar myndir af handritum og þá í meiri gæðum en áður.

Varðveisla

Gögn handritasafns eru varðveitt í viðurkenndum geymslum með slökkvibúnaði og stjórnun á hita- og rakastigi. Elstu og merkilegustu handritin eru í öryggishvelfingu. Viðgerðarstofa og myndastofa sinna þörfum handritasafns.

Miðlun og þjónusta

Stór hluti handrita í vörslu handritasafnsins er „lifandi" gögn. Lán á sameiginlega lestrarsali handritasafns og Íslandssafns á síðasta ári voru 2.968 eða um tíu handrit á dag. Aðstaða notenda á lestrarsal handritasafns er mjög góð. Gestir njóta góðs af sambúð við Íslandssafn þar sem þeir hafa aðgang að íslenskum prentuðum ritum frá upphafi. Til handritasafns leitar, auk fræðimanna, fólk af ýmsum þjóðfélagsstigum.