Landakort

Íslandskort.is - stafrænar endurgerðir korta af Íslandi.

Í kortasafni Landsbókasafns er að finna flest Íslandskort sem gefin hafa verið út fyrr og síðar. Mestur hluti þeirra mun hafa borist safninu samkvæmt lögum um skylduskil. Öll eldri Íslandskort (frá því fyrir 1900) í eigu Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Seðlabanka Íslands hafa verið yfirfærð á stafrænt form og eru aðgengileg á vefnum Íslandskort.is. Einnig er talsvert til af erlendum kortum, aðallega af Noregi.

Kortasafnið er á 1. hæð og er það eitt af sérsöfnum Landsbókasafns. Helstu kort íslensk eru kort danskra landmælingamanna af landinu frá því í byrjun 20. aldarinnar (herforingjaráðskortin), kort bæði breska og bandaríska hersins frá miðri 20. öldinni (AMS-kort), útgáfur Landmælinga Íslands og annarra útgefenda.

Á handbókasal á 2. hæð er talsvert af kortabókum, þ. á m. nýleg heildarútgáfa af atlasblöðum Landmælinga. Spjaldskrá yfir kortin nær fram á áttunda áratuginn. Þar sem spjaldskránni sleppir tekur Íslensk bókaskrá við en hún hefur allt frá upphafi árið 1974 innihaldið kortaskrá. Síðan 1990 hafa kort verið skráð í samskrá íslenskra bókasafna sem er að finna á Leitir.is.

Handbókasafn fyrir kortasafnið

Kortasafnið býr að miklu bókasafni (rúm 600 bindi) um kort og kortagerð sem Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni barst að gjöf frá Haraldi Sigurðssyni og konu hans Sigrúnu Á. Sigurðardóttur 1. desember 1994. Þar er m.a. að finna endurprentanir á kortabókum fremstu kortagerðarmanna fyrri alda, ýmis rit virtra fræðimanna á þessu sviði auk helstu tímarita um kort.

Atlas der Kurfürsten er dýrgripur sem kom fyrst út árið 1661. Ljósprentað eintak verksins er til sýnis í kortasafni.

Prospect af Reykevig paa Island

Prospect af Reykevig paa Island eftir Sæmund Hólm er meðal þess efnis sem hægt er að skoða á vefnum Íslandskort.is.