Íslandssafn

Hlutverk Íslandssafns er:

    • að safna öllu sem prentað hefur verið á Íslandi frá upphafi. Einnig erlendu prentuðu efni er varðar Ísland og Íslendinga. Safnið nýtur prent­­skila, en það þýðir að því berast eintök af öllu sem prentað er hér á landi.
    • að varðveita menningararf þjóðarinnar sem komið hefur verið fyrir í safninu og veita honum besta umbúnað sem unnt er.
    • að gera menningararfinn aðgengilegan þeim sem vinna að rannsóknum á sviðum er varða Ísland og Íslendinga eða vilja njóta íslenskra bóka sem minja og menningarfyrirbæra.

Afgreiðsla og upplýsingaþjónusta
Þeir sem þurfa á ritum Íslandssafns að halda snúa sér til bókavarðar við afgreiðsluborð í forsal. Rit eru ekki lánuð úr Íslandssafni, þannig er ávallt hægt að tryggja að þau séu aðgengileg.  Til að fá bók skal fylla út beiðni eða prenta færslu úr Gegni/Leitum. Áhersla er lögð á að aðstoða þá við hvers konar heimildaleit um íslensk málefni og greiða fyrir aðgangi þeirra að prentuðum ritum. Fyrirspurnum er einnig svarað í síma og í tölvupósti.                       
Gestir eru vinsamlega beðnir um að skrifa í gestabók, geyma yfirhafnir í fatahengi og töskur í skápum í forsal.

Lestrarsalur
Gestum Íslandssafns er boðin vinnuaðstaða á lestrarsal sem er sam­eigin­legur með handritasafni. Á lestrarsalnum eru um 50 vinnuborð, þar af 4 með tölvum sem veita aðgang að upplýsingakerfi safnsins. Einnig er hægt að vinna á eigin tölvu við öll borð. Handbókakostur á salnum er einkum miðaður við íslensk fræði; rit um bókmenntir, sagnfræði og byggðasögu, þjóðfræði, ættfræði, orðabækur, almenn uppflettirit og ýmis íslensk og erlend tímarit. Einnig Hæstaréttar­dómar, Alþingis- og Stjórnartíðindi. Vinnuborð skulu vera auð þegar salurinn er yfirgefinn. Hægt er að fá rit geymd í læstum skápum í forsal Íslandssafns til næstu daga sé þess óskað.

 

Dægurprent

Dægurprent er hluti af safnkosti Íslandssafns. Ritin geta verið allt frá einblöðungi upp í þykkan bækling frá bílaumboðum eða allt um hellulögn. Um er að ræða auglýsingar, dagbækur, grafskriftir, tækifæriskvæði, póstkort, veggspjöld og margt fleira.