Samstarfsverkefni

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn stendur að fjölda verkefna í samstarfi við innlenda og erlenda aðila. Þar að auki er safnið aðili að alþjóðlegum samtökum í tengslum við fjölþætt hlutverk safnsins. Hér eru talin upp nokkur helstu samtök og verkefni sem safnið stendur að:

ARLIS/Norden - samtök listbókasafna á Norðurlöndum

Samtökin voru stofnuð 1986 og eru aðili að Section of Art Libraries, sem er deild innan IFLA. Tilgangur ARLIS/Norden er að efla fagkunnáttu í norrænum listbókasöfnum. Í samtökunum eru bókasöfn á sviði myndlistar, listiðnaðar, hönnunar, byggingarlistar, ljósmyndunar og skyldra greina. Samtökin miðla upplýsingum og mynda tengsl milli félaganna. Ársfundur samtakanna stendur venjulega í 2-3 daga og er ákveðið efni tekið til umfjöllunar hverju sinni. Samtökin taka virkan þátt í alþjóðlegri samvinnu.
Vefur samtakanna er: http://www.arlisnorden.org
Tengiliður safnsins er Guðrún Eggertsdóttir.

CDNL - Conference of Directors of National Libraries

Um er að ræða fremur óformleg samtök sem halda eins dags fund á ári hverju, samtímis hinum árlegu IFLA-ráðstefnum. Landsbókavörður hefur tekið þátt í þessum ráðstefnum síðan 1997, þau ár sem hann hefur sótt IFLA-ráðstefnurnar.
Tengiliður safnsins er Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir.

CENL - Conference of European National Librarians

Samtökin voru mynduð 1987 og lýtur þátttaka í CENL sömu viðmiðun og aðild að Evrópuráðinu. Þátttökuþjóðir eru nú um 48. Landsbókavörður hefur flest undanfarin ár sótt árlega ráðstefnu samtakana. Vefur samtakanna er: http://www.nlib.ee/cenl/index.php og er þar að finna upplýsingar um starfsemina. Samtökin hafa komið á fót TEL (The European Library, „Evrópubókasafninu") og eru þar upplýsingar og fróðleikur um öll aðildarsöfnin og aðgangur að safnkosti margra þeirra.
Vefslóðin er: http://www.theeuropeanlibrary.org
Tengiliður safnsins er Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir.

ENRICH

Heiti verkefnisins ENRICH er skammstöfun fyrir European Networking Resources and Information concerning Cultural Heritage, Evrópskar net- og upplýs­ingaveitur um menningararfleifð. Markmið þess er að opna greiðan aðgang að stafrænum myndum af fornum heimildum sem varðveitt eru í ýmsum evrópskum menningarstofnunum og skapa með því móti sameiginlegt sýndarumhverfi, einkum til rannsókna á handritum en einnig vögguprenti, fágætum gömlum prentuðum bókum og öðrum sögulegum skjölum.
Vefslóðin er: http://enrich.manuscriptorium.com/
Tengiliður safnsins er Örn Hrafnkelsson

EUROPEANA

Europeana er samstarfsverkefni bókasafna, listasafna, skjalasafna og fleiri safna um að veita aðgang að stafrænu evrópsku efni um eina sameiginlega gátt.
Vefslóðin er www.europeana.eu
Tengiliður safnsins er Örn Hrafnkelsson

IAML - International Association of Music Libraries, Archives and Documentation Centres

Landsbókasafn gerðist aðili að þessum samtökum haustið 1995, en þau voru stofnuð árið 1951 í því skyni að efla samvinnu og auka framgang safna og stofnana sem fara með tónlistarefni. Í tímariti samtakanna Fontes artis musicae sem kemur út ársfjórðungslega. birtist árlega skrá sem ber heitið Recent publications in music. IAML styður ásamt IMS (International Musicological Society) fjögur alþjóðleg útgáfuverkefni: RISM, skrár um tónlistarhandrit fyrir 1800 og skrár um rannsóknarbókasöfn á tónlistarsviði. RILM, skrár með umsögnum um útgefið tónlistarefni. RidIM, skrár um myndefni í tónlist og RIPM, skrár um greinar í tónlistartímaritum frá 19. öld.
Vefur samtakanna er: http://www.iaml.info/.
Tengiliður safnsins er Bryndís Vilbergsdóttir.

IASA - International Association of Sound and Audiovisual Archives

Landsbókasafn varð aðili að IASA í ársbyrjun 1996, en þau samtök voru stofnuð 1969 í tengslum við UNESCO í því skyni að stuðla að og efla alþjóðlegt samstarf stofnana og safna sem hafa nýsigögn í safnkosti sínum. Samtökin eru nátengd IAML. IASA heldur árlega ráðstefnu og gefur út IASA Journal og IASA Information Bulletin.
Vefur samtakanna er: http://www.iasa-web.org/
Tengiliður safnsins er Bryndís Vilbergsdóttir.

IASA Nordic Branch

Norðurlöndin eiga með sér samstarf í IASA Nordic Branch, og er Landsbókasafn aðili að því samstarfi. IASA Nordic Branch hefur á stefnuskrá að halda fund þriðja hvert ár en það hefur ekki gengið eftir því síðasti fundur var 2003.
Vefur samtakanna er: http://www.nrk.no/iasa/.
Tengiliður safnsins er Bryndís Vilbergsdóttir.

IATUL - International Association of Technological University Libraries

Þátttaka er að forminu til bundin einstaklingum, og á landsbókavörður aðild að samtökunum. Um virka þátttöku hefur ekki verið að ræða, en rit samtakanna, IATUL Proceedings og IATUL News, koma reglulega í safnið gegn greiðslu þátttökugjalds.
Vefur samtakanna er: http://www.iatul.org/
Tengiliður safnsins er Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir.

IFLA - International Federation of Library Associations and Institutions

IFLA er alheimssamtök bókasafna stofnuð á alþjóðaráðstefnu í Edinborg 1927 og nú eiga aðild um 1700 stofnanir eða félög í 150 löndum. Landsbókasafn bættist í þann hóp 1997 og nokkru síðar Borgarbókasafn, en mun lengra er síðan Bókavarðafélag Íslands (nú Upplýsing) tengdist IFLA. Landsbókasafn er aðili að eftirfarandi deildum IFLA: þjóðbókasafn, rannsóknabókasafn, skráning, millisafnalán, fágæti og handrit, varðveisla og flokkun og lyklun. Samtökin gefa árlega út á prenti skrá (Directory) þar sem greint er ítarlega frá skipulagi samtakanna og viðfangsefnum og halda einnig árlega alþjóðlega ráðstefnu. Landsbókasafn greiðir þáttökugjald og veitir einnig fjárstuðning fimm sérverkefnum, svokölluðum „IFLA Core Programmes", Undanfarin ár hafa nokkrir starfsmenn safnsins sótt alþjóðaráðsefnu IFLA.
Vefur samtakanna er: http://www.ifla.org
Tengiliður safnsins er Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir.

ISBN - International Standard Book Number

ISBN (International Standard Book Number) er eingilt númer fyrir útgefnar bækur. Númerið var 10 stafir en 1. Janúar 2007 var því breytt í 13 stafa númer tilsvarandi hefðbundnum vörunúmerum. Umsjón og úthlutun bóknúmers er hjá hverju landi og hefur Landsbókasafn annast úthlutun alþjóðabóknúmera fyrir Ísland síðan 1990. Höfuðstöðvar starfseminnar eru í London, en þátttökuþjóðir eru um eitt hundrað.
Vefur samtakanna er: http://www.isbn-international.org/
Tengiliður safnsins er Helga Kristín Gunnarsdóttir.

ISSN - International Standard Serial Number

ISSN (International Standard Serial Number) er átta stafa eingilt númer fyrir tímarit, bæði prentuð og stafræn, og eru númerin vistuð í gagnagrunni á vegum samtakanna. Allmörg undanfarin ár hefur Landsbókasafn útvegað ISSN-númer fyrir íslensk tímarit frá alþjóðaskrifstofu tímaritsnúmera í París, en frá og með árinu 2001 er safnið formlegur aðili að þessari starfsemi. Slík aðild tryggir að færslur fyrir íslensk tímarit verða vandaðri en ella á hinum alþjóðlega vettvangi.
Vefur samtakanna er: http://www.issn.org/
Tengiliður safnsins er Helga Kristín Gunnarsdóttir.

IIPC - International Internet Preservation Consortium

IIPC eru samtök sem stofnuð voru 2003 með það markmið að skilgreina hvað þarf til að varðveita vefsíður einstakra landa (og jafnvel þegar fram í sækir allar vefsíður) þannig að vitrænt og menningarlegt innihald Vefsins fari ekki forgörðum. Stofnaðilar voru þjóðbókasöfn Ástralíu, Bandaríkja Norður-Ameríku, Bretlands, Danmerkur, Finnlands, Frakklands, Íslands, Ítalíu, Kanada, Noregs og Svíþjóðar, ásamt Internet Archive. 2007 fjölgaði aðilum og eru þeir nú um fjörtíu. Í stjórn samtakanna eru fulltrúar 13 aðila og heldur stjórnin 2 - 3 fundi á ári. Innan samtakanna starfa nokkrir vinnuhópar og fer það eftir atvikum hvaða söfn standa að hverjum hópi. Ísland tekur virkan þátt í stjórn og þremur starfshópum, og sækir þar vinnufundi.
Vefur samtakanna er: http://www.netpreserve.org/
Tengiliður safnsins er Kristinn Sigurðsson.

NOSP

Norræna samskráin um tímarit, NOSP (Nordisk/Baltisk Samkatalog for Periodika) var stofnuð í Háskólabókasafninu í Helsinki í Finnlandi árið 1977 með stuðningi frá NORDINFO. Skráin inniheldur upplýsingar um tímaritaeign u.þ.b. 1000 bókasafna á Norðurlöndum og  Eystrasaltslöndunum en þau gerðust aðilar að NOSP árið 2000.
Vefur skrárinnar er: http://www.nb.no/nosp/
Tengiliður safnsins er Helga Kristín Gunnarsdóttir

NORDBIB

NORDBIB var stofnað í mars 2006 og er um að ræða fjögurra ára þróunarverkefni (2006 - 2009) á vegum Nordforsk sem er stofnun á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Ráðherranefndin greiðir helming kostnaðar en þátttakendur í verkefnum bera helming. Markmið NORDBIB er að styrkja upplýsingatækniverkefni á vegum norrænna rannsókanarbókasafna. Nú (apríl 2006) er unnið að því að skilgreina og skipuleggja starfið en meðlimir NORON stýra því.
Vefur samtakanna er: http://www.nordbib.net/.
Tengiliður safnsins er Áslaug Agnarsdóttir.

NORON - fundir þjóð- og ríkisbókavarða Norðurlanda

Þjóðbókaverðir Norðurlanda, þ.e. Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar og forstöðumenn bókasafnsþjónustu Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar, hafa um árabil haldið með sér fundi, nú síðustu árin tvisvar á ári. Í mars 2006 var ákveðið að meðlimir NORON færu með stjórn NORDBIB.
Tengiliður safnsins er Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir.

Liber - Ligue des bibliothèques européennes de recherche

Liber eru samtök rannsóknarbókasafna í Evrópu, stofnuð 1971. Landsbókasafn á aðild að samtökunum, en hefur ekki tekið virkan þátt í starfseminni, þ.e. hvorki sótt hinar árlegu ráðstefnur Liber né átt virka aðild að starfshópum. Tímarit samtakanna, The Liber Quarterly, kemur reglulega í safnið gegn greiðslu þátttökugjalds.
Vefur samtakanna er: http://www.kb.dk/liber/
Tengiliður safnsins er Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir.

RILM

RILM Abstracts of Music Literature var stofnað 1966 og var markmið samtakanna að koma á fót gagnasafni með upplýsingum um tónlist. Í gagnasafninu eru nú meir en 500.000 skjöl af ýmsu tagi. Landsbókasafn á aðild og sendir greinar í gagnasafnið.
Vefur samtakanna er: http://www.rilm.org.
Tengiliður safnsins er Bryndís Vilbergsdóttir.

TEL - The European Library

Evrópubókasafnið TEL er metnaðarfull samvinna evrópskra þjóðbókasafna, styrkt af ES en undir merkjum CENL. Evrópubókasafnið veitir aðgang um eina gátt að stafrænum gögnum helstu þjóðbókasafna Evrópu og tengdri þjónustu.
Vefslóðin er http://www.theeuropeanlibrary.org
Tengiliður safnsins er Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir