Bókasöfn

Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni er sérstaklega ætlað að veita aðstoð við rannsóknir á sviði bókfræði og bókasafns- og upplýsingafræði. Safnið veitir öðrum bókasöfnum á Íslandi faglega ráðgjöf og sinnir auk þess ýmsum verkefnum er varða bókasöfnin öll, eins og gerð efnisorðaskrár fyrir samskrá bókasafna, og sér um Íslenska útgáfuskrá.

Millisafnalán - landsmiðstöð

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn er landsmiðstöð fyrir millisafnalán. Í því felst að safnið er leiðbeinandi fyrir millisafnalán innlendra safna og eins það safn sem erlend bókasöfn leita til fyrir millisafnalán frá Íslandi.

Gæðastjórnun

Safnið ber ábyrgð á gæðastjórnun fyrir færslur í landskerfi bókasafna á Leitir.is. Safnið rekur Handbók skrásetjara (HASK) á vefnum og hefur umsjón með efnisorðagjöf og nafnmyndum í skránni.

Hvar.is - gagnasöfn í landsaðgangi

Safnið hefur umsjón með landsaðgangi að gagnasöfnum (hvar.is) fyrir stjórnarnefnd landsaðgangs og menntamálaráðuneytið. Landsbókavörður ber ábyrgð á landssamningunum fyrir hönd verktaka.

Handbók um varðveislu safnkosts

Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn stendur að útgáfu fyrstu handbókar á íslensku um varðveislu safnkosts í samstarfi við Þjóðskjalasafn Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Um er að ræða tvö bindi með fræðsluefni sem tekur til margra þátta varðandi langtímavarðveislu hins efnislega hluta menningararfsins.

Lykilskrá

Lykilskráin er efnisorða- og mannanafnaskrá í samskrá bókasafna. Hún er tvískipt, í efnisorð og mannanöfn og velja þarf annað hvort í flipa efst á síðunni. Skráin er dregin vikulega út úr nafnmyndaskrá kerfisins. Það er því tryggt að hún endurspegli valorð í skránni.

Skráningarþjónusta

Landsbókasafn tekur nú að sér að skrá safnkost fyrir smærri söfn þar sem aðföng eru lítil. Í þessu felst flokkun, skráning og tenging í Gegni. Einnig eru rit kjalmerkt sé þess óskað.

    • Upplýsingar um viðmiðunarverð eru í gjaldskrá safnsins. Ef mikið er um tengingar í bókasendingu gæti heildarverð lækkað. Það verður metið í hverju tilviki.
    • Ekki er tekið við verkefnum sem vinna þarf á tilteknum stuttum tíma þar sem þetta verk er unnið meðfram annarri vinnu í safninu.
    • Allt að 50 bækur eru teknar í einu.

Nánari upplýsingar veitir Rósfríður Sigvaldadóttir
Sími: 525-5723
Netfang: rosast(hjá)landsbokasafn.is

Dewey-flokkunarkerfið

Í lok árs 2011 gerði Landsbókasafn Íslands-Háskólabókasafn samning við OCLC um samlagsáskrift á landsvísu að WebDewey, sem er Dewey flokkunarkerfið á netinu.  Safnið sér um allt utanumhald, fjármál og úthlutar aðgangsorðum.  Fimm söfn, utan Lbs-Hbs  tóku þátt frá byrjun en nú eru þau orðin 15. Áskrift að Vef-Dewey stuðlar að samræmi í flokkun og veitir stöðugt aðgengi að nýjustu uppfærslu kerfisins.

Flokkunarkerfi Deweys, ásamt afstæðum efnislykli, sem Lbs-Hbs gaf út árið 2002 í íslenskri þýðingu, er uppurið, en stafræna endurgerð má nálgast á bækur.is.