Fræðimenn og kennarar

Þjónusta Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns miðast við að skapa fyrsta flokks aðstöðu til gagnaöflunar og rannsókna fyrir fræðimenn og kennara. Safnið býr yfir stærsta safni vísindarita á Íslandi og er þar að auki með stóran handbókasal á annarri hæð. Alls staðar í Þjóðarbókhlöðu er þráðlaust net opið öllum og einnig eru nokkrar tölvur til afnota fyrir safngesti.

Safnið sér um landsaðgang að rafrænum gagnasöfnum og tímaritum og séráskriftir Háskóla Íslands að gagnasöfnum. Öll gagnasöfn sem eru aðgengileg í Háskóla Íslands eru einnig aðgengileg í Þjóðarbókhlöðu. 

Á fyrstu hæð Þjóðarbókhlöðu er lestrarsalur Íslandssafns og handritasafns þar sem hægt er að skoða þann hluta safnkostsins sem er afhentur við afgreiðsluborð til notkunar á staðnum. Þetta eru meðal annars hið viðamikla handritasafn Landsbókasafns, ýmis sérsöfn einstaklinga, bókasöfn og bréfasöfn, auk íslenskra prentaðra rita.

Safnið rekur námsbókasafn fyrir kennara Háskóla Íslands þar sem hægt er að taka frá þau rit sem notuð eru í námskeiðum og tryggja þannig að þau séu alltaf inni til notkunar í Þjóðarbókhlöðu. Þjónusta við Háskóla Íslands, meðal annars vegna ritakaupa, er skilgreind í sérstökum samstarfssamningi.