Fréttir

Vefsöfnun í aðdraganda kosninga 2009

Um þessar mundir safnar Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn efni af netinu varðandi alþingiskosningar 2009.

Með reglulegu millibili eru tekin afrit af vefsíðum sem geyma efni um kosningarnar og aðdraganda þeirra. Má þar nefna vefsíður er varða þjóðfélagsumræðu þessa stundina s.s. vefir stjórnmálaflokka, frambjóðenda, greinaskrif, umræður, blogg og fleira. Efnið er varðveitt í gagnasafni Landsbókasafns Íslands en verður ekki aðgengilegt strax. Í framtíðinni mun almenningur geta skoðað vefsafnið og séð hvernig vefsíður frambjóðenda, flokka og fréttamiðla hafa verið á hverjum tíma. Kosningasöfnun er nú framkvæmd í þriðja sinn en sambærilegar safnanir voru framkvæmdar fyrir sveitarstjórnarkosningar 2006 og alþingiskosningar 2007.

Þess má geta að samkvæmt lögum um skylduskil hefur safnið það hlutverk að safna íslenskum vefsíðum af léninu .is, sem og erlendum síðum um íslenskt efni og eftir Íslendinga. Slík söfnun er framkvæmd þrisvar á ári. Auk þess er völdum þjóðmálavefjum safnað vikulega árið um kring. Atburðasöfnun vegna kosninga er hins vegar afmarkaðri og eru vefsíður afritaðar ört yfir 3-4 mánaða tímabil eftir því sem þörf krefur.

Upplýsingar um vefsíður sem tengjast alþingiskosningum 2009 má senda til Soffíu Bjarnadóttur: soffiabj@bok.hi.is , sími 525-5640.

Nánari upplýsingar veitir Kristinn Sigurðsson: kristsi@bok.hi.is , sími 525-5656.

➜ Fréttasafn