Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Býsönsk dómsdagsmynd í Flatatungu – doktorsritgerð Selmu Jónsdóttur

Selma Jónsdóttir (22. ágúst 1917 – 5. júlí 1987) var fyrsti Íslendingurinn til að ljúka prófi í listfræði og fyrsta konan sem hlaut doktorsnafnbót frá Háskóla Íslands.

Árið 1944 lauk hún B.A.-prófi í listfræði frá Columbia háskóla í New York. Selma stundaði framhaldsnám við Columbia háskólann 1944–1945 og við Warburg Institute í London 1946–1948. Hún lauk M.A.-prófi árið 1949. Meistaraprófsritgerð Selmu vakti mikla athygli, bæði hér á landi sem og erlendis, og birtist ritgerðin í tímaritinu The Art Bulletin í september 1950.

Sérsvið Selmu var miðaldalist og á því sviði vann hún mikið brautryðjendaverk. Selma varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands þann 16. janúar 1960. Í ritgerðinni sýndi hún fram á að útskornar fjalir úr Flatatungu hefðu upprunalega verið hluti af dómsdagsmynd í býsönskum stíl frá miðöldum. Almenna bókafélagið gaf ritgerðina út, bæði á íslensku og ensku.

Selma tók við Listasafni Íslands árið 1950 þegar það hafði aðsetur sitt á efstu hæð Þjóðminjasafnsins og var eini starfsmaður þess í 17 ár. Hún átti ríkan þátt í uppbyggingu safnsins og veitti því forstöðu til æviloka.

Selmu er minnst í samstarfi við Kvennasögusafn Íslands, Listasafn Íslands, Listfræðifélag Íslands og Safnahús Borgarfjarðar.

➜ Eldri kjörgripir