Sýningar

Og íslenska konan eignaðist rödd...

Sýning um kvennablöð og kvennatímarit verður opnuð í Þjóðarbókhlöðu á miðvikudaginn, síðasta vetrardag, kl. 16:00. Á sýningunni er fjallað um íslensk blöð og tímarit sem konur hafa gefið út og/eða ritstýrt og eru einkum ætluð konum.

Elsta tímaritið sem enn er gefið út er Húsfreyjan sem Kvenfélagasamband Íslands gefur út og á 60 ára afmæli á þessu ári.

Sýnd eru kvenréttindatímarit eins og Melkorka, Forvitin rauð og Vera og kvennablöð eins og Frúin, Snót, Líf, Nýtt Líf, Eldhúsbókin, Vikan o.fl., o.fl. Einnig tímarit sem konur hafa ritstýrt en hafa almennari skírskotun, eins og Mannlíf og Heimsmynd.

Sérstaklega er fjallað um frumkvöðul kvenna í blaðamannastétt sem var rithöfundurinn og myndlistarmaðurinn Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm. Torfhildur hóf að gefa út ársritið Draupni árið 1891 en það var „safn af skáldsögum og sönnum sögum o.fl.," eins og segir á titilsíðu ritsins. Stöku sinnum birtust í ritinu upplýsingar úr kvenréttindabaráttunni vestanhafs en Torfhildur bjó og starfaði í Kanada um hríð auk þess sem hún nam þar myndlist.

Mánaðarritið Dvöl gaf Torfhildur út á árunum 1901-1917. Þar birti hún þýddar sögur og greinar, gaf ýmis heilræði, birti mataruppskriftir og sagði til í hannyrðum. Torfhildur gaf einnig út tímarit fyrir börn með efni við þeirra hæfi.

Á sýningunni eru ýmsir munir úr eigu Torfhildar, m.a. stofuborðið hennar, peysufatasjal og púði sem hún saumaði og perluskreytti. Einnig er þar sýnishorn af handritum og blómateikningum Torfhildar.

Ennfremur má sjá á sýningunni ritvél Laufeyjar Valdimarsdóttur, dóttur Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, og bréf sem hún skrifaði á þann góða grip til utanríkisráðuneytisins vegna ferðar á þing Alþjóða sambands kvenréttindakvenna í Genf árið 1945 en hún lést í þeirri ferð.

Viðtal við Auði Styrkársdóttur í Samfélagið í nærmynd:

Myndir frá sýningunni:

Sýningarspjöld á PDF-formi

➜ Eldri sýningar