Fréttir

Tímanna safn 1818-2018. Erindi Braga Þorgríms Ólafssonar 1. mars

26.02.2018

Fimmtudaginn 1. mars mun Bragi Þorgrímur Ólafsson, fagstjóri handritasafns Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, flytja erindið „Landsbókasafn og ræktun íslenskrar menningar 1818 – 1888.“ 

Í útdrætti erindisins segir:

„Landsbókasafn Íslands var stofnað árið 1818, í byrjun þess tímabils sem oft er kennt við þjóðernisvakningu og upphaf sjálfstæðisbaráttu. Í þeim anda hefur oft verið farið fögrum orðum um safnið og það talið hafa haft mikilvægu hlutverki að gegna hjá þjóð sem kennir sig við bóklegar menntir. Saga safnsins á fyrstu áratugunum einkenndist þó af þrautagöngu og baráttu Jóns Árnasonar bókavarðar og þjóðsagnasafnara fyrir bættum hag safnsins. Í erindinu verður saga þess fram til 1888 rakin með dæmum úr bréfum, blaðagreinum, fundargerðabókum og öðrum heimildum þar sem við sögu koma danskir málarar, hriplek þök, brotnir gluggar, misáhugasamir embættismenn og bók sem safnið gaf út árið 1842 sem Jón Sigurðsson forseti sagði að væri lélegasta bók Íslandssögunnar.“  

Erindið verður flutt í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðu á milli kl. 12:05 og 12:45.

Verið öll hjartanlega velkomin.

Fyrirlestraröðin á Facebook: https://www.facebook.com/events/182997635779892/

➜ Fréttasafn