Fréttir

Tímanna safn 1818-2018. Erindi Erlu Huldu Halldórsdóttur 1. febrúar

01.02.2018

Fimmtudaginn 1. febrúar mun Erla Hulda Halldórsdóttir, lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands, flytja erindið „Sendibréf í safni Páls Pálssonar stúdents“ í fyrirlestraröðinni Tímanna safn sem haldin er í tilefni af 200 ára afmælis Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Í útdrætti erindisins segir:

„Þegar sendibréf eru notuð sem vitnisburður um fortíðina, um líf og reynslu fólks, þarf að lesa þau vandlega og setja í samhengi við það menningarlega samhengi sem þau eru sprotinn úr, þ.e. stað og stund, stétt, kyn og kyngervi svo nefndir séu nokkrir þeirra samtvinnuðu þátta sem móta sendibréfið. Bréf eru nefnilega ekki aðeins persónuleg skrif sem send voru milli einstaklinga heldur einnig menjar um læsisiðkanir, fjölskyldutengsl og félagslegar venjur.

Í fyrirlestrinum verður rætt um bréfasafn Páls Pálssonar stúdents (1806–1877), skrifara á Arnarstapa, sem varðveitt er á handritasafni Landsbókasafns. Safnið spannar 60 ár, en fyrstu bréfin til Páls eru skrifuð árið 1817, þegar hann hafði verið sendur til fósturs og mennta austan af Héraði suður í Odda. Bréfin eru um 1600, bréfritarar 165, þar af tíu konur. Bréf úr safni Páls hafa um árabil verið notuð við sagnfræðirannsóknir, einkum bréf þekktra karlmanna á borð við Baldvin Einarsson og Tómas Sæmundsson. Hér verður aftur á móti lögð áhersla á fjölskyldubréf í safni Páls, tengsl og tengslanet og bréflegar iðkanir – einkum þó á hið hversdagslega líf sem birtist í bréfunum og er ómetanlegur vitnisburður um löngu horfinn heim.

Páll Pálsson hélt ekki aðeins saman bréfasafni sínu heldur safnaði hann einnig handritum og bókum sem er mikilvægur hluti af Landsbókasafni. Í grein um hann í Sunnanfara árið 1894 segir: „Landsbókasafnið ber menjar Páls svo lengi, sem það stendur, og hans hendur hafa unnið öllum þeim, sem þurfa að nota það, ómetanlegt hagræði og er ekki meira en skyldugt að minnast þess.“

Erla Hulda Halldórsdóttir er lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands og meðritstjóri Sögu. Sérsvið hennar er kvenna- og kynjasaga. Hún lauk doktorsprófi í sagnfræði við Háskóla Íslands árið 2011 og kom doktorsritgerð hennar, Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850–1903, út árið 2011. Erla var forstöðukona Kvennasögusafns Íslands 1996–2001.

Erindið verður flutt í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðu á milli kl. 12:05 og 12:45.

Verið öll hjartanlega velkomin.

Fyrirlestraröðin á Facebook: https://www.facebook.com/events/182997635779892/

➜ Fréttasafn