Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Höfuðrit hagfræðinnar gegn kreppu

Í kjölfar heimskreppunnar á fjórða áratug síðustu aldar var atvinnuleysi mikið á Vesturlöndum. Milljónir manna gengu atvinnulausar og örbirgð var mikil. Stjórnvöld gripu víða til aðgerða til að skapa atvinnu en forseti Bandaríkjanna, Franklin D. Roosevelt, var þar fremstur í flokki. Hann innleiddi nýja efnahagsstefnu, „nýja sátt" (New Deal), sem fólst í miklum framkvæmdum á vegum hins opinbera og félagslegum umbótum sem tryggðu mönnum lágmarkslaun og rétt til félagslegrar aðstoðar.

Innan hagfræði voru miklar deilur um ástæður kreppunnar og lausnir á henni. Árið 1936 var gefin út bók sem olli straumhvörfum í nútíma hagfræði og hugmyndum um hvernig leysa má kreppur auðvaldsríkja. Þetta var bókin Altæka kenningin um atvinnu, vexti og peninga eftir breska hagfræðinginn John Maynard Keynes. Bókin var gagnrýni á ríkjandi rétttrúnaðarhagfræði þess tíma. Keynes hélt því fram að koma mætti hjólum atvinnulífsins af stað að nýju með því að skapa jákvæðar væntingar meðal fjárfesta. Hann færði rök fyrir því að jákvæðar væntingar mætti laða fram með því að auka almenna spurn eftir vörum í hagkerfinu, auka framkvæmdir hins opinbera, lækka vexti og auka peningamagn í umferð. Bókin lagði grunninn að efnahagsstefnu Keynesismans sem flestar ríkisstjórnir á Vesturlöndum aðhylltust á seinni hluta 20. aldar.

Árið 1961 þýddi Haraldur Jóhannsson hagfræðingur mikilvægustu kaflana úr bók Keynes og skrifaði inngang að henni. Bókin birtist hér sem kjörgripur mánaðarins (smellið á myndina til að skoða PDF-skjalið sem er 10,8Mb).

<< Eldri kjörgripir

➜ Eldri kjörgripir