Fréttir

Tímanna safn 1818-2018. Bókverk í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni 20. september

14.09.2018

Fimmtudaginn 20. september munu Unnar Örn myndlistarmaður og Rannver H. Hannesson, forvörður, fagstjóri forvörslu og bókbands, flytja erindið „Bókverk í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni“ í fyrirlestraröðinni Tímanna safn sem haldin er í tilefni af 200 ára afmælis Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Í útdrætti erindisins segir:

„Í fyrirlestrunum verður fjallað um bókverk, bækur listamanna og skapandi prentverk hér á landi. Sagt verður frá sýningunni Bókverk - frá skapandi prenti til útgáfu listamanna sem nú stendur yfir í Safnahúsinu við Hverfisgötu í tilefni af 200 ára afmæli Landsbókasafns – Háskólabókasafns.  Á sýningunni eru bækur eftir listamenn og annað skapandi prentverk varðveitt í Þjóðarbókhlöðu en á þessu ári varð til nýtt  sérsafn í Landsbókasafni tengt bókverkum og útgáfu listamanna.  Sagt verður frá stöðu bókverksins á allra síðustu árum, þróun í útgáfumálum listamanna og dæmi tekin af kjörgripum á sýningunni í Safnahúsi. Á sýningunni er lögð áhersla á að sýna forsögu bókverksins í samspili við tilraunir listamanna með bókarformið. Verkin eru sótt í safnkost Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og eru öll unnin hérlendis frá lokum 19. aldar til dagsins í dag. Öll verkin á sýningunni eru dæmi um prentverk og tilraunir listamanna, prentara og útgefenda til skapandi nálgunar við prentlistina. Eldri verkin á sýningunni eru sett í samhengi við bókagerð samtímans og á sýningunni má sjá bækur og aðra útgáfu listamanna í sínu fjölbreyttasta formi.“ 

Erindið verður flutt í fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðu á milli kl. 12:05 – 12:45.

Verið öll hjartanlega velkomin.

Fyrirlestaröðin á Facebook

➜ Fréttasafn