Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Vísnakver Fornólfs

 
Vísnakver Fornólfs kom út 1923. Bókin er gott dæmi um aukið myndmál í útgáfu eftir að prentmyndagerð varð möguleg hér á landi eftir 1919 og eru 20 eintök bókarinnar prentuð á teiknipappír með handlituðum teikningum. Höfundur Vísnakvers Fornólfs er Jón Þorkelsson forni [1859−1924] sem var kunnur af störfum sínum sem landsskjalavörður og þjóðskjalavörður um langt árabil. Jón dvaldist við fræðistörf og ritstörf í Kaupmannahöfn til 1898, er hann fluttist til Reykjavíkur. Hann var um tíma alþingismaður og auk þess forseti Sögufélagsins frá stofnun þess 1902 til æviloka og forseti Bókmenntafélagsins frá 1918 til æviloka. Jón samdi rit og greinar um sögu Íslendinga og bókmenntir og annaðist útgáfu margs konar fróðleiks frá liðnum öldum og nokkurra ljóðabóka og ritstjórn nokkurra tímarita. Myndhöfundur Vísnakvers Fornólfs var Björn (Björnstjerne) Björnsson [1886−1939], gullsmiður og teiknari. Myndamót gerði Ólafur Hvanndal (1879-1954), en hann var frumkvöðull í prentmyndagerð hér á landi. Útgefandi var Ársæll Árnason (1886-1961) og sá hann einnig um bókband. Ársæll nam bókband í Þýskalandi starfaði um tíma í Svíþjóð. Hann starfaði á Landsbókasafninu 1914-1916 og stofnaði eftir það eigin bókbandsstofu. Prentsmiðjan Gutenberg prentaði. Bókin er á bókverkasýningu í Safnahúsinu til 2. júlí 2019.

Vísnakver Fornólfs má skoða á baekur.is 

➜ Eldri kjörgripir