Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Bókband eftir Ársæl Árnason í Bókbindarasafni

Í Bókbindarasafni sem Félag bókagerðarmanna (nú Grafía) afhenti Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni til varðveislu árið 2012 er margt merkra gripa, þ. á m. verðlaunabók Ársæls Árnasonar frá Iðnsýningunni 1911.  

Ársæll Árnason (1886-1961) hóf bókbandsnám hjá Guðmundi Gamalíelssyni í Reykjavík 1895. Ársæll fékk iðnnemastyrk úr landssjóði til framhaldsnáms við Berliner Buchbinder-Fachschule. Í Þýskalandi tók Ársæll þátt í bókbandskeppni sem aðaltímarit bókbindara þar í landi hélt og hlaut hann fjórðu verðlaun, en 72 bækur komu til álita. Bókin sem hann batt inn var Isländische Dichter eftir Poestion. Samkvæmt ummælum dómnefndar var bandið „ágætlega unnið og meðferðin á skinninu góð.“ Hin vandasama og fyrirhafnarmikla gylling þótti líka eiga lof skilið. Teikningin þótti fyrirtak og í ágætu samræmi við efni bókarinnar. Ársæll Árnason kom heim rétt fyrir iðnsýninguna 1911 og hlaut þar fyrstu verðlaun fyrir bókband þessarar bókar. Hann starfaði hjá Landsbókasafni Íslands í tvö ár, 1913-14. Eftir það opnaði Ársæll eigin bókbandsvinnustofu.

Bókbindarasafnið varð til að frumkvæði Sigurþórs Sigurðssonar bókbindara. Safnið hefur verið skráð í bókasafnskerfið Gegni og er nú eitt af sérsöfnum Landsbókasafns en það hefur áhuga á því að eignast bókbandsverk eftir sem flesta bókbindara landsins. Þannig mun safnið geta gefið heildarmynd af sögu bókbands á Íslandi og nýst við rannsóknir á henni. Bækurnar í safninu eru handbundnar af hinum ýmsu bókbindurum en margir þeirra eiga fleiri en eina bók.

➜ Eldri kjörgripir