Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Jón Ólafsson Indíafari

Frægasta ferðasagan

Jón Ólafsson, sem nefndur var „Indíafari" (4. nóvember 1593 - 3. maí 1679) var bóndasonur frá Svarthamri í Álftafirði á Vestfjörðum. Þegar hann var tuttugu og tveggja ára lagði hann af stað í ferðalag sem stóð í ellefu ár. Löngu seinna skrifaði hann einstæða ferðabók, Æfisögu Jóns Ólafssonar Indíafara, og var þá orðinn 68 ára gamall.


Á þessu málverki af orrustunni við Køge Bugt 1677 sjást dönsk herskip svipuð Perlunni sem Jón Ólafsson sigldi á frá Indlandi

Í ferðasögunni segir Jón frá ótrúlegum ævintýrum sínum og ferðalögum í Evrópu og Asíu. Hann gerðist byssuskytta Kristjáns konungs IV en í þjónustu hans hátignar ferðaðist hann vítt og breitt um heiminn, til Svalbarða og Hvítahafs í Rússlandi og einnig fyrir Góðrarvonarhöfða árið 1622 og til Indlands. Í ferðinni kynntist hann Norður-Afríku, sem hann kallaði Barbaríið, Kanaríeyjum, Suður-Afríku, Madagaskar og eyjaklösunum við austurströnd Afríku, Sri Lanka og loks suðausturhluta Indlands í dönsku nýlendunni Tranquebar þar sem Danir höfðu virki. Á heimleiðinni kom Jón við á Írlandi. Það er afar fróðlegt að lesa lýsingu 17. aldar manns á lifnaðarháttum í fjarlægum heimsálfum og ekki síst í Danmörku á þessum tíma.

Eftir að Jón sneri aftur heim varð hann ein helsta fallbyssuskytta Íslands. Hann var á Bessastöðum þegar Tyrkjaránið átti sér stað árið 1627 og var nærri búinn að sökkva einu af skipum sjóræningjanna.

Æfisaga Jóns Ólafssonar Indíafara er kjörgripur ágústmánaðar og er hér birt bæði í íslenskri og enskri útgáfu.

Á íslensku:
1. hluti

2. hluti

3. hluti

4. hluti
Á ensku:
1. hluti

2. hluti

3. hluti

4. hluti

<< Fyrri kjörgripir

➜ Eldri kjörgripir