Fréttir

Landsbókasafn Íslands 190 áraÍ dag er Landsbókasafn Íslands 190 ára. Dagsetningin miðast við færslu í bréfabók Geirs Vídalíns biskups 28. ágúst 1818, þar sem hann skrifar um stofnun stiftsbókasafns. Þetta var fyrsti vísir að því sem síðar varð Landsbókasafn Íslands. Hér á eftir fer kafli úr grein Finnboga Guðmundssonar landsbókavarðar, „Landsbókasafn Íslands 1818-1994“ sem birtist í bókinni Sál aldanna: Íslensk bókasöfn í fortíð og nútíð 1997 (s. 81-82):

Jón Jacobson landsbókavörður samdi á sinni tíð minningarrit um aldarsögu Landsbókasafnsins 1818-1918, mikið verk er kom út 1919-20. Jón getur þess þar að hugmyndin um stofnun almenns bókasafns á Íslandi muni fyrst skjallega komin frá Þýzkalandi og birtir hann í þýðingu langt og merkilegt bréf, dagsett 28. ágúst 1817, frá Friedrich Schlichtegroll, aðalritara Konunglegu vísindaakademíunnar í München, til Münters Sjálandsbiskups. Allar líkur benda til að Schlichtegroll hafi einnig ritað nokkrum Hafnar-Íslendingum um málið og ljóst er að málaleitan hans kom til umræðu, bæði í háskólaráði og í Hafnardeild Hins íslenzka bókmenntafélags. Stofnun bókasafns var aðeins einn þáttur í mjög mikilvægum tillögum Schlichtegrolls, því að þessi þýzki hugsjónamaður sá fyrir sér sem í draumi eins konar allsherjarvísindastofnun sem þó legði megináherzlu á rannsókn íslenskrar náttúru og bókmennta.

Þess var ekki að vænta að slíkar tillögur næðu fram að ganga þá, en draumsýnir Schlictegrolls komu róti á hugi manna og bjuggu í haginn fyrir annan útlending er brátt lét bókasafnsmálið til sín taka og hratt því áleiðis svo að um munaði. Er hér átt við Danann Carl Christian Rafn. Hann hafði 23 ára gamall ekki fyrr gengið í Hafnardeild Bókmenntafélagsins en hann lagði fram bréf þar sem hann æskir þess að félagið „setji nefnd manna til að yfirvega, hvörnig almennt bókasafn verði bezt stiftað á Íslandi með fylgjandi lista yfir ýmsar bækur, er nokkrir þegar vilja gefa til þessa augnamiðs“, eins og segir í Samkomubók Hafnardeildar 30. marz 1818.

Forseti deildarinnar, Bjarni Þorsteinsson, tók rösklega á þessu máli, þakkaði Rafni í bréfi daginn eftir „göfuga viðleitni, tillögur og tilboð“, en ritaði síðan 14. apríl forseta Reykjavíkurdeildar féagsins, Árna Helgasyni, um málið. Reykjavíkurdeildin ræddi það á fundi 27. júlí og ákveð að rita samdægurs stiftsyfirvöldunum um það, en þegar dráttur varð á svari þeirra, sennilega vegna fjarveru Castenschiolds stiftamtmanns, ritar Árni Helgason Geir biskupi Vídalín bréf 18. ágúst og spyrst fyrir hjá honum „hvort ei mundi ráð til að bókmenntunum yrði móttaka veitt og sú ráðstöfun gerð, sem tilhlýðileg er bæði í tilliti til bókanna geymslu og líka brúkunar“.

Geir biskup brást snarlega við þessari málaleitan, svaraði Árna í bréfi 28. ágúst, bað hann flytja Rafni beztu þakkir fyrir „sinn heiðursverða velgjörning“, en kveðst jafnframt samdægurs hafa „tilskrifað því konungl. d. Cancellie og beiðzt af því samþykkis og nauðsynlegs peningastyrks til að hentugur karmur yrði tilbúinn á Reykjavíkur dómkirkjulofti þessu bókasafni til varðveizlu, og gjöri ég mér beztu von um bænheyrslu hér um,“ segir Geir biskup.

Í registri bréfabókar biskups hefur hann skrifað „Stiftsbibliotek funderast“ og hefur því síðan verið fylgt að miða stofnun safnsins við bréfagerð biskups þennan dag, 28. ágúst 1818, þótt bréfið til kansellísins yrði að vísu ekki sent fyrr en 11. september ...

➜ Fréttasafn