Fréttir

Vefsafn opnað

Á vefsafn.is verða vefsíður og önnur stafræn gögn sem birt eru á þjóðarléninu, .is, varðveitt um aldur og ævi og öllum aðgengileg. Einnig verður efni á íslensku, sem birt er á öðrum lénum en því íslenska, varðveitt í vefsafninu ásamt efni á öðrum tungumálum sem íslenskir aðilar birta og gildir það jafnt um ritað efni, ýmiss konar myndefni og tónlist.

Ísland er fyrsta landið í heiminum sem opnar almenningi aðgang að öllu efni sem safnað er af þjóðarléni landsins. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur safnað íslensku vefefni frá árinu 2004 samkvæmt lögum um skylduskil en í þeim lögum er ákvæði um að sá sem birtir efni á stafrænu formi á almennu tölvuneti skuli veita móttökusafni aðgang að því efni. Það er því ekki einungis efni frá opinberum aðilum sem varðveitt verður í vefsafninu heldur einnig vefsíður og bloggsíður fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga og má búast við því að safnið verði gríðarlega mikilvæg heimildanáma fyrir t.d. sagnfræðinga og fjölmiðlafólk framtíðarinnar. Í þeirri námu verða heimildir um fréttir, stjórnmál, skoðanaskipti almennra borgara, íslenskt mál, viðskipti, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök og hvaðeina sem Íslendingar sjá ástæðu til að setja á veraldarvefinn.

Safnið hefur sett sér reglur um framkvæmdina og er öllum íslenska vefnum safnað þrisvar sinnum á ári og völdum vefsíðum vikulega. Við sérstakar aðstæður eins og t.d. kosningar er safnað vefsíðum sem tengjast þeim. Fyrirmyndin að vefsafninu er hið bandaríska Internet Archive – archive.org sem frá 1996 hefur m.a. safnað íslenskum vefsíðum en söfnun íslenska vefsafnsins verður mun ítarlegri en áður hefur þekkst.

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá opnuninni:

➜ Fréttasafn