Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Ímynd Íslendinga ógnað

Árið 1607 kom út í Leyden í Hollandi bókin Islandia eftir Dithmar Blefken, sem fjallaði um Ísland og Íslendinga. Sú mynd sem þar var dregin upp var ófögur og var mörgum brugðið. Landsmenn hafa löngum verið viðkvæmir fyrir því hvaða augum útlendingar líta þá. Í byrjun 17. aldar áttu Íslendingar því við „ímyndarvanda“ að etja og skrifaði Arngrímur Jónsson lærði bókina Anatome Blefkeniana til að hrekja ummæli Blefkens í hans illræmdu bók. Hann greindi m.a. frá því að „Íslendingar eru allir mjög hneigðir til hjátrúar og hafa púka og anda í þjónustu sinni. Eru þeir menn einir fiskisælir, sem djöfullinn vekur að næturlagi til þess að róa til fiskjar.“ Blefken segir fleiri sögur af nánum tengslum Íslendinga við Satan og lýsir í smáatriðum ógeðfelldum drykkjusiðum þeirra. Það kemur á óvart að, eftir því sem hann segir, verða þeir allt að 300 ára gamlir. Þá segir Blefken frá ýmsum siðum eyjarskeggja og greinir frá því að „á nóttunni sefur húsbóndinn og öll fjölskylda hans, kona og börn, í einu lofti og hafa yfir sér ábreiðu úr ull ... Öll pissa þau í sama koppinn, og á morgnana þvo þau sér úr honum um andlit, munn, tennur og hendur. Þeir telja þessu margt til gildis og segja, að það fegri andlitið, viðhaldi kröftunum, styrki handsinarnar og verji tennurnar skemmdum“.

Islandia Blefkens er kjörgripur október mánaðar. Auk hennar er birt þýðing Haraldar Sigurðssonar sem kom út í bókinni Glöggt er gests augað árið 1946. Þýðingin er hér birt með góðfúslegu leyfi ekkju hans Sigrúnar Ástrósar Sigurðardóttur. Haraldur starfaði á Landsbókasafni Íslands á árunum 1946-1978.

Dithmar Blefken, Islandia sive Populorum & mirabilium quæ in ea Insula reperiuntur..., Leyden 1607.
Þýðing Haraldar Sigurðssonar úr bókinni Glöggt er gests augað: Úrval ferðasagna um Ísland, ritstj. Sigurður Grímsson, Reykjavík 1946.

Eldri kjörgripir »

➜ Eldri kjörgripir