Fréttir

Eitt tungumál fyrir allan heiminn

Málþing og sýning til heiðurs Þorsteini Þorsteinssyni, hagfræðingi og esperantista verður haldið í Þjóðarbókhlöðunni, fimmtudaginn 15. október klukkan 15:30. Eftir málþingið verður ný sýning opnuð í sýningarrými bókhlöðunnar.

Sýningin Eitt tungumál fyrir allan heiminn er haldin í tilefni af því að í ár eru hundrað ár liðin frá því að fyrsta íslenska kennslubókin í esperanto kom út. Dr. Þorsteinn Þorsteinsson hagfræðingur og  fyrsti forstöðumaður Hagstofu Íslands skrifaði bókina og lagði hún grunn að fjölbreyttu íslensku esperantostarfi.

Esperanto er hlutlaust planmál ætlað til alþjóðlegra samskipta, grundvallað af L.L. Zamenhof. Málið birti Zamenhof 1887 og í dag er það mest notaða planmál veraldar. Í formála kennslubókarinnar segir Þorsteinn m.a.: „Síðan latínan hætti að vera hjálparmál allra menntaðra manna, hefur þörfin á að setja eitthvert annað mál í stað hennar orðið æ brýnni ár frá ári ... það eru ekki einungis lærðu mennirnir, sem þurfa á hjálparmáli að halda, heldur einnig alþýða manna.“

Eitt tungumál fyrir allan heiminn

15:30 Málþing - Kaffi á könnunni í fundarsal

Jónas Haralz, hagfræðingur: Nokkrar endurminningar um Þorstein Þorsteinsson hagstofustjóra

Gylfi Zoega, deildarforseti hagfræðideildar HÍ: Þorsteinn og hagfræðin

Kristján Eiríksson, formaður Íslenska esperantosambandsins: „Eiga vildi ég orðastað á öldinni sem kemur”,  Esperanto fyrr og nú

Baldur Ragnarsson, rithöfundur: Kennslubók Þorsteins í esperanto

Málþinginu stýrir Hannes Högni Vilhjálmsson, lektor við HR

17:00 Sýning – Opnun og veitingar

➜ Fréttasafn