Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Um frelsið eftir John Stuart Mill

John Stuart MillBókin Um frelsið, eftir John Stuart Mill (1806-1873), er eitt af grundvallarritum vestrænnar lýðræðishugsunar en Mill var einn áhrifamesti heimspekingur og hagfræðingur Breta. Bók hans Principles of Political Economy (1848) tók við af Auðlegð þjóðanna, eftir Adam Smith, sem mikilvægasta kennslubók hagfræðinnar og var það í hálfa öld. Þótt Mill væri frjálshyggjumaður var hann gagnrýninn á kenningar Smiths.

Mill taldi að tekjudreifing í hagkerfinu væri mannanna verk en liti ekki óhjákvæmilegum náttúrulögmálum. Hann tók undir ýmsar röksemdir jafnaðarmanna og gagnrýni á auðvaldssamfélagið. Mill færði einnig rök fyrir náttúruvernd með skírskotun í gildi náttúrufegurðar.

Rit Mills, Um frelsið, sem kom fyrst út árið 1859 er, sem fyrr segir, eitt af grundvallarritum vestrænnar lýðræðishugsunar. Í bókinni birtist hugsun sem rekja má aftur til Johns Lockes um að fullveldi einstaklingsins sé æðra fullveldi ríkisins og aftur til nytjahyggju Jeremys Benthams sem Mill betrumbætti.

Harriet TaylorMill var undir áhrifum Frakkans de Tocqueville og lagði mikla áherslu á valddreifingu og sjálfstæði nærsamfélaga. Megin boðskapur bókarinnar Um frelsið er þó röksemdir gegn alræði meirihlutans og rökin fyrir rétti minnihlutans til að viðhalda skoðunum sínum í lýðræðislegu samfélagi. Mill færði jafnframt rök fyrir því að frelsi einstaklinga takmarkist af því að gjörðir þeirra skaði ekki aðra einstaklinga (kallað  „skaðsemislögmálið“). Svo lengi sem einstaklingurinn skaðar ekki aðra með gjörðum sínum hefur samfélagið ekki rétt til afskipta af honum.

Mill getur þess í sjálfsævisögu sinni að eiginkona hans, Harriet Taylor, hafi haft afgerandi áhrif á þá hugsun sem ríkir í bókinni.

Jón Ólafsson ritstjóri þýddi bókina sem kom út árið 1886 en þá voru miklir vakningartímar í stjórnmálaumræðu á Íslandi. Jón Ólafsson var tvívegis dæmdur fyrir skrif sín í íslensk blöð og flúði land af þeim sökum.

Um frelsið eftir John Stuart Mill í þýðingu Jóns Ólafssonar (PDF, 12Mb)

<< Fyrri kjörgripir

➜ Eldri kjörgripir