Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Aldarsaga Landsbókasafns Íslands 1818-1918

Jón Jacobson (1860-1925) landsbókavörður samdi í byrjun síðustu aldar minningarrit um aldarsögu Landsbókasafns Íslands 1818-1918, mikið verk er kom út árið 1920.

Jón rekur sögu safnsins í annálsformi frá ári til árs, fyrst er inngangur um tildrög að stofnun þess en síðan kemur sjálf saga safnsins sem hefur verið skipt niður í þrjá aðalþætti: I. Á dómkirkjuloftinu (1825-1881); II. Í alþingishúsinu (1881-1908) og III. Í Landsbókasafnshúsinu (1908-1918). Þar á eftir eru æviágrip yfirbókavarðanna þriggja: Jóns Árnasonar, Hallgríms Melsteðs og Jóns Jacobsonar. Einnig eru prentuð allmörg fylgiskjöl og nafnaskrá. Í bókinni eru nokkrar stórar og vandaðar myndir, fremst er mynd af Carl Christian Rafn sem telja má föður safnsins. Auk myndarinnar af honum eru myndir af Safnahúsinu, bæði að innan og utan, af yfirbókavörðunum þremur og af lestrarsalnum gamla í alþingishúsinu.

Í frásögninni minnist Jón á þau nánu tengsl sem voru á milli sögu safnsins og þjóðfélagsins eins og kemur fram í þessum orðum (bls. 216): „Það er gleðilegt íhugunarefni, hve samtvinnaður vöxtur og gengi Landsbókasafnsins hefur jafnan verið vaxandi sjálfstæði og batnandi hag hinnar íslenzku þjóðar. Þegar alþingi hafði fengið fjárforræði og Íslendingar fengið stjórnarskrá, kemst safnið í fjárlög þess, þótt útlátin væri af skornum skamti; þegar alþingi eignast hús yfir höfuðið á sér, kemst safnið undir sama þakið, og þegar stjórnin er loks orðin alinnlend, er því reist veglegt hús á landsjóðs kostnað.“

Aldarsaga Landsbókasafns Íslands 1818-1918 er kjörgripur desembermánaðar á landsbokasafn.is en þann 1. desember eru 15 ár liðin frá því að Landsbókasafnið og Háskólabókasafnið voru sameinuð í Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og flutt í Þjóðarbókhlöðu.

Smellið á myndina til að skoða ritið á PDF-formi (60,3 Mb):

Jón Jacobsson

<< Fyrri kjörgripir

➜ Eldri kjörgripir