Fréttir

15 ára afmæli 1. desember 2009

Miðstöð munnlegrar sögu opnar safn sitt
og skemman.is verður kynnt

Þann 1. desember 2009 voru 15 ár liðin frá því að Landsbókasafn Íslands og Háskólabókasafnið voru sameinuð og flutt í Þjóðarbókhlöðuna við Arngrímsgötu.

Af því tilefni var efnt til sérstakrar dagskrár í fyrirlestrasal á 2. hæð Þjóðarbókhlöðu, þriðjudaginn 1. desember sl. kl. 14.00. Athöfnin var haldin í samvinnu við Miðstöð munnlegrar sögu (MMS) sem þá opnaði safn sitt almenningi. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra opnaði safnið og Guðmundur Jónsson prófessor og formaður stjórnar MMS flutti stutt ávarp. Þá kynnti Brynhildur Sveinsdóttir verkefnisstjóri MMS safnið og spilaði brot af hljóðrituðu efni. Framvegis verður hægt að hlusta á efnið á 4. hæð Þjóðarbókhlöðu.

Miðstöð munnlegrar sögu var stofnuð í ársbyrjun 2007 og hefur aðsetur í Þjóðarbókhlöðu. Að henni standa þrjár rannsókna- og háskólastofnanir í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Þær eru Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands (RIKK) og menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Við þetta tækifæri kynnti Áslaug Agnarsdóttir, sviðsstjóri í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, verkefnið skemman.is sem er rafrænt gagnasafn háskóla fyrir lokaverkefni nemenda og rannsóknarit starfsmanna.

➜ Fréttasafn