Fréttir

Munnleg saga á menningarnótt

Reykjavíkursögur - eftirminnilegar stundir Á menningarnótt býður Miðstöð munnlegrar sögu borgarbörnum, ungum jafnt sem öldnum, að tylla sér inn í hljóðver miðstöðvarinnar og segja frá eftirminnilegum stundum í borginni. Hljóðver Miðstöðvarinnar verður að finna í litlu vinalegu garðhúsi á horni Aðalstrætis og Túngötu, við inngang Landnámssýningarinnar. Allir sem heimsækja hljóðverið fá afrit af eigin upptöku á geisladiski. Hljóðverið er opið á milli 12 og 18.

Komdu og segðu okkur frá eftirminnilegum stundum í borginni! Skautaðir þú á Tjörninni eða í Skautahöllinni? Heimsóttir þú Listamannaskálann eða gekkstu á sunnudögum um Hallargarðinn? Manstu spilasalinn í Hafnarstræti eða tónleikamaraþon Tónabæjar? Dansaðir þú á Borginni eða í Hollywood eða gekkstu kannski Hallærisplanið? Heimsækir þú listasöfnin og Kolaportið? Býrðu þig í betri fötin á sunnudögum?

Söfnunarátakið Borgarbörn er hluti af stærra verkefni sem nefnist Reykjavíkursögur. Markmiðið er að safna, varðveita og miðla Reykjavíkursögum frá ólíkum tímum. Á árinu 2008 verður athyglinni beint að frístundum sem mótast af borgarumhverfinu. Frásagnirnar og viðtölin verða tekin upp og geymdar í safni Miðstöðvar munnlegrar sögu. Þær verða nýttar til að byggja upp sérstakan vef Reykjavíkursagna þar sem verður hægt að hlusta á frásagnir og fræðast í máli og myndum um lífið í Reykjavík á ýmsum tímum.

Miðstöð munnlegrar sögu er safn og rannsókna- og fræðslustofnun á sviði munnlegrar sögu með aðsetur í Þjóðarbókhlöðu. Hlutverk hennar er að safna munnlegum heimildum um sögu landsmanna, miðla þeim og varðveita til frambúðar. Vefsíðu Miðstöðvarinnar er að finna á http://www.munnlegsaga.is

Styrktaraðilar Reykjavíkursagna eru Reykjavíkurborg, Ikea og Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Nánari upplýsingar gefur Unnur María Bergsveinsdóttir, verkefnastjóri Miðstöðvar munnlegrar sögu í síma 525-5776 og 691 0374 og í gegnum netfangið munnlegsaga@munnlegsaga.is.

➜ Fréttasafn