Fréttir

Endurnýjun samnings við Háskóla Íslands

Skrifað var undir endurnýjaðan samstarfssamning milli Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Háskóla Íslands þann 16. desember. Hann tekur við af fyrri samningi frá 2004 og viðauka við hann frá 2007. Nýmæli í samningnum er að nú sitja tveir fulltrúar frá hvorri stofnun í samstarfsnefnd í stað eins áður og að fræðasvið skulu tilnefna tengiliði við safnið og safnið tilnefnir tengiliði við sviðin á móti í því markmiði að auka upplýsingaflæði og efla tengsl. Þá mun skólinn taka þátt í rekstri Skemmunnar sem er rafræn gagnageymsla á öllum lokaritgerðum nemenda HÍ auk annars efnis frá nemendum, kennurum og starfsliði skólans. Meðal fylgiskjala er nýtt verklag vegna ritakaupa, yfirlit um hlutverk tengiliða og skrá um útibú en nú hefur útibú safnsins í VR-II verið lagt niður.

Samningurinn er þriðji formlegi samstarfssamningur skólans og safnsins og er til fimm ára. Hægt er að lesa samninginn í heild sinni hér.

Á ljósmynd: Ingibjörg S. Sverrisdóttir landsbókavörður og Kristín Ingólfsdóttir rektor
Guðmundur R. Jónsson framkvæmdastjóri, Ingibjörg Halldórsdóttir, lögfræðingur HÍ, Áslaug Agnarsdóttir, sviðsstjóri þjónustusviðs LbÍH, Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs HÍ og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjárreiðusviðs HÍ.

➜ Fréttasafn