Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Barátta góðs og ills í barnabók eftir John Ruskin

Kóngurinn í Gullá er barnabók sem skrifuð var í þjóðsagnastíl. Í henni segir frá dal einum þar sem menn lifa góðu og hamingjusömu lífi. Í sögunni segir frá þremur bræðrum. Tveir þeirra eru afar sjálfselskir og grimmir og greiða ógjarnan sína tíund til samfélagsins. Illska þeirra verður til þess að hörmungar ríða yfir hinn frjósama dal og íbúa hans. Þriðji bróðirinn er mikið góðmenni og tekst að lokum að bjarga dalnum frá glötun með fölskvalausum kærleika sínum.

Bókin var fyrst gefin út í Englandi árið 1841 en kom út í íslenskri þýðingu eftir Einar Hjörleifsson í Winnipeg 1891. Einar tók síðar upp eftirnafnið Kvaran en sýning um hann stendur nú yfir í glerhýsinu í anddyri Þjóðarbókhlöðu. Bókin Kóngurinn í Gullá fór víða á Íslandi og var gefin aftur út árin 1941 og 1951. Í þessum síðari útgáfum var bókin myndskreytt af Barböru Árnason.

John Ruskin (1819-1900) var mikilsvirtur samfélagshugsuður á Bretlandi á 19. öld. Hann hafði mikil áhrif á þróun sósíalisma á Bretlandi sem lagði áherslu á siðfræðilegar forsendur samfélagsins. Ruskin var einn af forvígismönnum kristins sósíalisma. Hann var málsvari smáiðju gegn stóriðju og brautryðjandi þeirrar hreyfingar sem gagnrýnir bæði ríkissósíalisma og markaðskerfi en vill hlut félagshagkerfisins, þ.e. hlut frjálsra félagasamtaka, sem mestan í samfélaginu.

Ruskin stofnaði hinn fræga Ruskinskóla í Oxford til að koma efnalitlu alþýðufólki til mennta. Eins og kunnugt er gekk Jónas Jónsson frá Hriflu í Ruskin College í Oxford í eitt misseri 1908 en hann var um áratugi einn helsti leiðtogi samvinnumanna og ungmennafélaganna á Íslandi. Ruskinskólinn var í mörgu fyrirmynd Jónasarskólans á Bifröst.

Kóngurinn í Gullá er fyrsti kjörgripur ársins 2010.

➜ Eldri kjörgripir