Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Fyrsta íslenska skáldsagan

Piltur og stúlka, dálítil frásaga eftir Jón Þórðarson Thoroddsen er talin vera fyrsta íslenska skáldsagan. Sagan er rómantísk ástarsaga en aðalsögupersónurnar eru Indriði og Sigríður. Sagan hefst á Héraði á austurlandi en færist síðan til Reykjavíkur. Í henni er sveitalífið rómað en dregin er upp dökk mynd af mannlífinu í Reykjavík.

Jón skrifaði skáldsögu sína á árunum 1848-49 í Danmörku en hann hóf lögfræðinám í Kaupmannahöfn 1841. Jón lauk ekki náminu áður en hann kom til Íslands 1850 enda hafði hann verið virkur í félagslífi Íslendinga í Kaupmannahöfn og m.a. af auraleysi skráð sig í danska herinn, en hann tók þátt í orustum Dana og Þjóðverja í Slésvíkurstríðinu 1848. Hann gaf út menningar- og samfélagstímaritið Norðurfari ásamt Gísla Bynjúlfssyni 1848 og 1849, en það má lesa á vefslóðinni www.timarit.is.

Jón Thoroddsen flutti til Íslands 1850 og var þá með nýútgefna bók sína í farteskinu. Hann var settur í sýslumannsembættið á Barðaströnd sama ár. Bók hans vakti litla athygli í fyrstu en var þó gefin út öðru sinni 1867.

Piltur og stúlka, dálítil frásaga er kjörgripur febrúarmánaðar. Hér er birt fyrsta útgáfa bókarinnar frá 1850 sem varðveitt er í safni Benedikts S. Þórarinssonar í Landsbókasafni Íslands.

➜ Eldri kjörgripir