Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Aldrei að víkja

Árið 1909 gaf Vestur-Íslendingurinn A. J. Johnson (Andrés Jónsson í Ásbúð) út röð póstkorta í Winnipeg sem tileinkuð voru þekktum Íslendingum. Á kortunum eru ljósmyndir af viðkomandi mönnum en í bakgrunninn er bláhvíti fáninn og skjaldarmerki með fálka á bláum grunni. Fáninn og skjaldarmerkið voru upprunalega hugmyndir Einars Benediktssonar skálds um fullveldistákn Íslands. Einnig voru birtar tilvitnanir í þá sem kortin voru tileinkuð. Á korti sem ber mynd af Einari Hjörleifssyni skáldi, sem bjó vestanhafs um árabil, stendur: „Vér höfum aldrei undirgengist að nokkur þjóð hafi endalaust vald yfir nokkrum okkar málum. Vér gerum það aldrei vegna landsins okkar, vegna okkar sjálfra, og vegna barnanna okkar“.

Póstkort endurspegla tíðarandann hverju sinni og á þeim árum sem kort A. J. Johnson voru gefin út var sjálfstæðisbarátta landsmanna í algleymingi. Ungmenni flykktust í ungmennafélögin sem tóku upp kjörorðið „Íslandi allt“, eins og kemur fram í Skinfaxa, tímariti UMFÍ sem lesa má á slóðinni www.timarit.is.

Á öld upplýsingatækni eru þeir orðnir fáir sem skrifa bréf eða póstkort og senda ættingjum og vinum. Þetta var mikið gert á síðustu öld og var póstkortaútgáfa blómleg eins og kemur fram í B.A.-ritgerð Ragnhildar Bragadóttur „Lukkuósk í tilefni af 6. Maj 1900“.

Elsta kortið með íslenskri mynd er þýskt frá tímabilinu 1880-1900. Frumútgáfur íslenskra korta frá síðustu öld eru um 3000 en útgáfan var mjög sveiflukennd og m.a. háð fjölda ferðamanna sem til landsins komu.

Þjóðdeild Landsbókasafnsins varðveitir mikinn fjölda íslenskra póstkorta en þau eru mikilvægur hluti útgáfu og listasögu Íslendinga. Birting póstkortasafnsins mun hefjast á næstunni á sérstakri heimasíðu Þjóðdeildar um póstkort sem tileinkuð er smáritum og „smælki“ í vörslu hennar.

➜ Eldri kjörgripir