Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Bréf Áslaugar Torfadóttur til föður síns, Torfa Bjarnasonar í Ólafsdal

Sendibréf Áslaugar Torfadóttur til föður síns, Torfa Bjarnasonar, eru kjörgripur aprílmánaðar. Alls er hér um 50 sendibréf að ræða sem Áslaug sendi á árunum 1887-1914.

Áslaug Torfadóttir 18 ára
Áslaug Torfadóttir þegar hún var kennari í Ögri
Áslaug Torfadóttir fæddist 17. maí 1869 og var hún dóttir hjónanna Guðlaugar Zakaríasdóttur (1845-1937) og Torfa Bjarnasonar (1838-1915). Áslaug ólst upp að Varmalæk í Borgarfirði og Ólafsdal í Dalasýslu þar sem foreldrar hennar ráku um langt skeið búnaðarskóla, þann fyrsta á Íslandi.

Á árunum 1887-1888 hleypti Áslaug heimdraganum og fór til Reykjavíkur, þaðan sendi hún föður sínum fimm bréf þar sem hún segir frá lífinu í höfuðstaðnum og m.a. segir frá því að hún hafi setið fyrirlestur hjá Bríeti Bjarnhéðinsdóttur um réttindi kvenna. Áslaug segist ekkert vit hafa á að dæma fyrirlesturinn en aðrir hafi talið hann vera löngu þarfan. Í nóvember 1889 er Áslaug komin að Ögri í Norður-Ísafjarðarsýslu, þar sem hún var ráðin til að kenna börnum, en varðveitt eru sex sendibréf Áslaugar til föður síns frá þeim árum (1889-1891) er hún var í Ögri. Hún lýsir þar m.a. aðbúnaði sínum og spyr föður sinn ráða varðandi kennsluefni.

Hjálmar gefur konu sinni blóm
Hjálmar gefur konu sinni blóm á efri árum
Þau ár sem Áslaug var í Ögri fór hún heim í Ólafsdal yfir sumartímann. Þar kynnist hún tilvonandi mannsefni sínu, Hjálmari Jónssyni frá Skútustöðum í Suður-Þingeyjarsýslu en hann var nemi hjá Torfa í Ólafsdal á árunum 1887-1889. Haustið 1891 fluttist Áslaug norður og giftu þau sig í október það ár. Fyrstu búskaparár Áslaugar og Hjálmars einkenndust af tíðum flutningum um Skútustaðahrepp en þau bjuggu að Garði árin 1893-1894, Haganesi árin 1894-1895 og Gautlöndum árin 1895-1897. Árið 1898 fluttust þau að Ljótsstöðum í Laxárdal og bjuggu þar til 1906 er þau fluttust að Grænavatni. Þar bjuggu þau til 1908 en þá fluttu þau aftur að Ljótsstöðum þar sem þau byggðu sitt framtíðarheimili.

Áslaug og Hjálmar eignuðust alls 10 börn og komust 7 þeirra til fullorðinsára. Börn þeirra voru: Torfi (19.11.1892-5.6.1972), Guðlaug (4.12.1894-6.12.1894), Leifur (31.12.1895-9.11.1898), Ragnar (28.9.1898-24.12.1987), Karl (17.12.1900-4.7.1964), Helgi Skúta (17.8.1902-30.11.1965), Ásgeir Sigurður Ingólfur (17.10.1904-24.5.1926), Þórlaug Þuríður (20.12.1906-18.9.1972), Jón Leifur (10.8.1909-20.6.1981) og Guðmundur Vilhjálmur (10.8.1909-6.11.1973).

Sendibréf Áslaugar gefa m.a. áhugaverða sýn inn í heim húsmóðurinnar á þessum árum, heim ungu hjónanna sem eru að hefja búskap og heim dótturinnar sem býr órafjarri æskustöðvunum. Í sendibréfum sínum greindi hún frá atburðum daglegs lífs, fæðingum barna sinna, uppvexti þeirra og almennri líðan. Á jóladag 1904 skrifar Áslaug t.a.m. og segir frá aðfangadeginum, frá fötunum sem hún saumaði á litlu drengina sína, jólatrénu með ljósunum 17 og gleði barnanna.

Söknuður hennar eftir foreldrum sínum og æskustöðvum er greinilegur. Hún hefur áhyggjur af líðan foreldra sinna, minnist þess hversu gott veðrið var alltaf á kvöldin í Ólafsdal og langar til að sjá fólkið sitt og sýna þeim börnin sín.

Fjölskyldumynd
Fjölskyldumynd frá 1906 f.v. Ragnar, Áslaug, Ásgeir, Hjálmar, Helgi, Torfi og Karl.
Í bréfi skrifuðu að Grænavatni 26. nóvember 1906 segir Áslaug við föður sinn ,,Jeg sendi nú mömmu mynd af okkur öllum, en þær eru ekki góðar af drengjunum. Torfi hlær of mikið, því það var allt af verið að reyna að fá þá til að vera glaðlega, eins og þeir eru vanalega, en það gekk illa um þá litlu, því vargur var svo mikill að þeir höfðu engan frið og Ásgeir er með flugubit vinstra megin við nefið hjá auganu og með svekkingarsvip. Ragnar hengir vörina ósköp ólundarlega, en Kalli snýr sjer of mikið undan og gefur hornauga nú fjarska alvarlegur. Helgi er aðeins grettur einkum í brúnunum en hans mynd er skárst. Okkar myndir þykja allgóðar. Jeg hef gaman af að heyra hvað þið segið um þær.“

Bréf Áslaugar eru hluti af gríðarmiklu bréfasafni Torfa Bjarnasonar sem varðveitt er á Handritadeild Landsbókasafns Íslands, en bréfin eru ríflega 11 þúsund talsins. Safnið samanstendur að miklu leyti af bréfum frá fólki í Dalasýslu, Barðastrandarsýslu, Ströndum og Húnavatnssýslu. Þá eru bréf embættismanna áberandi en einnig er þarna að finna bréf frá vinnufólki, fátækum bændum, konum, börnum og handverksmönnum. Bréf handverksmanna gefa áhugaverða sýn á þá handverksmenningu sem var í gangi allt í kring um Torfa. Gullsmiðir, trésmiðir, söðlasmiðir o.fl. biðja t.d. um hjálp við að útvega efni og um góð ráð af ýmsum toga.

Smellið á myndina til að sækja pdf-útgáfu af bréfi Áslaugar (0,6Mb).

Bréf

➜ Eldri kjörgripir