Fréttir

Nýr vefur: Handrit.is

Nýr vefur, handrit.is, var formlega opnaður í dag, síðasta vetrardag. Á handrit.is er veittur rafrænn aðgangur að handritum sem varðveitt eru í Árnasafni í Kaupmannahöfn, handritadeild Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Einnig er veittur aðgangur að stafrænum myndum af handritunum. Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, opnaði vefsvæðið á ársfundi Árnastofnunar sem haldinn var á Hótel Sögu í dag.

Söfnin þrjú sem standa að handrit.is varðveita hinn skrifaða menningararf þjóðarinnar og með opnun vefsvæðisins er nú veittur nýstárlegri aðgangur að bæði innihaldi handritanna og að handritunum sjálfum. Þar með opnast auðvelt aðgengi að þúsundum íslenskra og norrænna handrita og skjala frá fyrri öldum. Nú þegar hafa um 200.000 blaðsíður verið myndaðar og eru mynduð handrit 851.

Á síðasta ári var Handritasafn Árna Magnússonar tilnefnt á sérstaka varðveisluskrá UNESCO, Minni heimsins (Memory of the World Register) svo ekki verður um villst að íslensk handrit vekja athygli á alþjóðavettvangi. Varðveisluskráin Minni heimsins hefur að markmiði að stuðla að og efla varðveislu gagna, stuðla að opnu aðgengi að menningararfi og efla vitund um tilvist og gildi menningararfs.

Skráning er lykill að gagnasöfnum, opnar sýn á efni þeirra og stuðlar að markvissari leit og notkun. Ljósmyndun eða stafræn myndataka gagna stuðlar að varðveislu þeirra þar sem oft verður minni þörf á að handleika sjálf frumgögnin. Að gera skráningu og myndir af frumgögnum aðgengileg á vefnum opnar aðgengi að þeim með öðrum hætti en hingað til og mun, ef vel tekst til, efla vitund um þann mennningararf sem handrit og skjöl geyma og jafnframt auka áhuga á rannsókn hans.

Vefsíðan www.handrit.is hefur öll þrjú meginmarkmið Minnis heimsins að leiðarljósi og leggur grunninn að miklu verki sem mun ná utanum um allan handritaforða safnanna þriggja sem að því standa. Það verk verður unnið á næstu árum.

 

➜ Fréttasafn