Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Íslandssaga handa börnum og skólamaðurinn Jónas frá Hriflu

Jónas frá HrifluÍ ár eru 125 ár liðin frá fæðingu Jónasar Jónssonar frá Hriflu en hann fæddist 1. maí 1885. Hann var einn umdeildasti og virtasti stjórnmálamaður Íslendinga á síðustu öld. Jónas lét til sín taka á fleiri sviðum og var mikill frömuður í menntamálum. Hann var boðberi róttækra hugmynda í kennslufræðum sem hann lýsti í grein sinni um Lýðskólann í Askov í Eimreiðinni 1909. Í greininni segir Jónas m.a:

„Flestir voru nemendurnir lítt undirbúnir og alloft með óbeit á bókum og bóknámi frá barnaskólaárunum. Fyrirlestrarnir áttu að hressa og fjörga þá og útrýma óþægilegum endurminningum um utanaðlærdóminn. Tækist það, þá var verkið hálfnað. Næsta stigið var að kenna nemendunum að vinna upp á eigin spýtur, og til þess voru samtalstímarnir ætlaðir. Kennarinn fór þá gegnum það, sem hann hafði sagt í fyrirlestrunum, eða piltar lesið sjálfir. Hann hlýddi þeim ekki yfir, en rifjaði upp aðalatriðin. Hver kom þá með það, sem hann mundi og hafði tekið eftir; samtalið leiddist þá orð af orði, en kæmi það altof langt frá efninu, sveigði kennarinn inn á brautina að nýju, minti á sumt af því, sem gleymst hafði, og útskýrði nánar það torskildasta. Í samtalstímunum áttu kennararnir hægast með að kynnast nemendunum, uppgötva í þeim það bezta og sérkennilegasta og reyna síðan að hjálpa þeim til að þroskast samkvæmt eðli og náttúrugáfum.“

Jónas hélt áfram umræðunni um skólamál í greinum í Skólablaðinu 1911-1912 og 1913 birti hann merka grein‚ ,Nútíma hugmyndir um barnseðlið‘, í tímaritinu Skírni.

Stofnun samvinnuskóla var eitt af baráttumálum Jónasar og birti hann grein um hugmyndir sínar um kennsluhætti í Tímariti íslenzkra samvinnufélaga 1917. Þar segir hann m.a:

„Í bókahillum bókasafns skólans ... eru öll hin helztu heimildarrit, sem þörf er á við námið, og mörg eintök af þeim bókum, sem heill bekkur þarf að nota samtímis. Kenslustundir eru tiltölulega fáar. Kennararnir flytja yfirlitsfyrirlestra og láta nemendur hafa sér til stuðnings stuttar handbækur með nákvæmum heimildaskrám. Síðan er námssveinunum gert að skyldu að safna efni úr mörgum heimildum viðkomandi aðalatriðum kenslunnar og skrifa um það ritgerðir. Síðan les kennarinn yfir hverja ritgerð með þeim einum, sem hana hefir samið. Slík kensla hefir alstaðar reynst vel. Hún venur nemendur á að vinna sjálfstætt, og að athuga hlutina með eigin augum. Starf kennarans er að vísa á veginn, benda á heimildirnar, og kenna viðvaningunum skipulega vinnu. Þeim mönnum, sem lært hafa slíkt vinnulag, verður auðveldara að brjóta vandamálin til mergjar, heldur en þeim, sem vandir eru á að eta hugsunarlaust eftir, það sem þeim er sagt.“

Jónas er líklega þekktastur fyrir stjórnmálastörf sín en hann var einn af stofnendum Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins. Hann var dómsmálaráðherra í einni mestu framkvæmdastjórn Íslandssögunnar en það var minnihlutastjórn Framsóknarflokksins 1927-1931. Hann var um árabil formaður flokksins og einn helsti leiðtogi samvinnuhreyfingarinnar.

Jónas skrifaði mikinn fjölda greina í tímaritið Rétt, Tímarit samvinnumanna og Tímann. Hann skrifaði einnig margar greinar í Skinfaxa, blað Ungmennafélags Íslands. Skinfaxi var eitt margra tímarita sem hann ritstýrði en Skinfaxi var gegnsýrður af hugmyndafræði sjálfstæðisbaráttunnar ekki síður en hugmyndum ungmennafélaganna um heilbrigða sál í heilbrigðum líkama. Í tímaritinu birtust margar samfélagsádeilur en í grein í því árið 1913 lætur Jónas þessi sígildu orð falla: „Við megum ekki gleyma því að í landinu hefur myndast hópur fjárglæframanna, sem aðallega gera sér að atvinnu að stofna til félaga, sprengja þau og hirða molana. Þeir menn eru lausir við flestar siðlegar hömlur. Fjárgræðgin knýr þá áfram; hegningarhúsið er hið eina sem þeir forðast. Þessvegna beita þeir kænsku sinni til að svíkja lögum samkvæmt; þvílíkir ræningjar eru mestu skaðræðismenn samtíðarinnar.“

Jónas Jónsson frá Hriflu var umdeildur stjórnmálamaður en þrátt fyrir að langt sé síðan að hann féll frá birtast í hverjum mánuði að meðaltali u.þ.b. tvær greinar í íslenskum tímaritum og blöðum þar sem Jónas kemur við sögu. Hann var kennari að mennt og starfaði sem kennari og skólastjóri þau ár sem hann gegndi ekki þingmennsku eða var ráðherra. Hann skrifaði einhverja langlífustu kennslubók Íslands, Íslandssaga handa börnum, sem kennd var í barnaskólum landsins í sjö áratugi, en hún kom fyrst út árið 1915. Bókina má líta á sem minnisvarða þeirrar kynslóðar sem bar uppi sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og hún er kjörgripur maímánaðar. Jónas andaðist 1968.

Íslandssaga handa börnum fyrri hluti
(PDF - 47Mb)
Íslandssaga handa börnum síðari hluti
(PDF - 40Mb)

<< Fyrri kjörgripir

➜ Eldri kjörgripir