Fréttir

Heimspekingur sest að í Þjóðarbókhlöðu

Heimspekingur sá sem nú er fluttur inn í Þjóðarbókhlöðuna er skúlptúr eftir Aðalheiði S. Eysteinsdóttur, innblásinn af Þorsteini Gylfasyni fyrrum prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, en hann var góður vinur listakonunnar Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur.

Heimspekingur er gjöf til Háskóla Íslands frá Þráni Eggertssyni, prófessor í hagfræði, gefin í minningu Þorsteins Gylfasonar en Þráinn var vinur hans. Þorsteinn lést árið 2005, aðeins 63ja ára að aldri.

Vinir Þorsteins hafa nú afhent háskólarektor og landsbókaverði styttuna til varðveislu í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni. Safnið var arfleitt að bókasafni Þorsteins og hefur nú einnig fengið handrita- og bréfasafn hans til varðveislu.

Þó að verk Aðalheiðar, Heimspekingur, minni mjög á Þorstein er það ekki portrettmynd af honum. Aðalheiður notast ekki við ljósmyndir af fyrirmyndum sínum heldur minningar og tilfinningar um viðkomandi. Verkið er því, frá hennar bæjardyrum séð, frekar vitnisburður um mann eins og Þorstein.

Aðalheiður vinnur aðallega með fólk og dýr í list sinni og notar í það timbur sem fellur til á ýmsum stöðum. Verk hennar eru afar sérstök og persónuleg og eru allir hvattir til að koma í Þjóðarbókhlöðuna og heilsa upp á Heimspeking sem er staðsettur á 2. hæð, við stigann niður í þjóðdeild.

➜ Fréttasafn