Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Kosningaréttur kvenna og Bríet Bjarnhéðinsdóttir

Þann 19. júní verða liðin 95 ár frá því að Kristján konungur X skrifaði undir lög frá Alþingi þess efnis að íslenskar konur ættu kosningarétt til Alþingis en karlmenn höfðu nokkuð almennt haft þann rétt frá árinu 1875. Að vísu settu íslenskir þingmenn konum í landinu þau skilyrði að þær yrðu að vera orðnar fertugar eða eldri til að fá réttinn en konur létu það ekki á sig fá heldur fögnuðu nýfengnum rétti með hátíðahöldum á Austurvelli þann 7. júlí. Önnur af tveimur ræðukonunum á Austurvelli var Bríet Bjarnhéðinsdóttir.

Bríet fæddist árið 1856 að Haukagili í Vatnsdal og lést í Reykjavík árið 1940. Þegar hún fæddist voru konur ekki aðeins miklu réttlægri en karlar í íslensku samfélagi heldur höfðu nánast enga möguleika aðra en þá að giftast eða verða vinnukonur á heimilum annarra. Árið 1940 höfðu konur hins vegar fengið flest lagaleg réttindi til jafns við karlmenn, gátu gengið í alla skóla og áttu úr ýmsu öðru að velja en húsmóðurstarfinu eða vinnumennsku. Sjálf átti Bríet drjúgan hlut að máli. Hún stofnaði Kvennablaðið árið 1895, þar sem hún boðaði kvenréttindi af auknum þunga, hafði frumkvæði að stofnun Kvenréttindafélags Íslands árið 1907 og settist ein fjögurra kvenna í bæjarstjórn Reykjavíkur árið 1908 en allar höfðu þær verið kjörnar af sérstökum kvennalista sem Bríet hafði frumkvæðið að. Um ævi og margvísleg störf Bríetar og baráttu íslenskra kvenna fyrir kosningarétti má lesa á sérstökum vefjum Kvennasögusafns Íslands (www.kvennasogusafn.is), en segja má að kvenréttindabarátta Bríetar og íslenskra kvenna hafi byrjað með fyrirlestri þeim er hún hélt í Reykjavík 30. desember árið 1888 og nefndist Fyrirlestur um hagi og rjettindi kvenna í útgáfu Sigurðar Kristjánssonar í Ísafoldarprentsmiðju og kallaður „fyrsti fyrirlestur kvennmanns á Íslandi“ á titilblaði. Bríet fjallaði um það sem hún þekkti best, uppeldi, menntunarleysi og launakjör vinnukvenna og sagði að hugsunarhátturinn þyrfti að breytast.

Smellið á myndina til að sækja PDF-útgáfu (10,5Mb):

<< Fyrri kjörgripir

➜ Eldri kjörgripir