Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Konur hefja á loft sérstakan fána Íslendinga

Þann 2. ágúst 1897 var haldin þjóðminningarhátíð í Reykjavík. Slík hátíð var haldin fyrst árið 1875 til að fagna stjórnarskránni og hafði þessi siður haldist með nokkrum hléum (enn eimir eftir af siðnum í formi þjóðhátíðar Vestmannaeyinga). Meðal atriða var skrúðganga frá Lækjartorgi inn að Rauðarártúni þar sem hátíðin var haldin. Félagskonur Hins íslenska kvenfélags báru í göngunni litla bláhvíta fána sem festir voru á prik. Á hátíðarsvæðinu við Rauðará höfðu félagskonur Hvítabandsins einnig skreytt tjald sitt með fánanum. Þorbjörg Sveinsdóttir, yfirsetukona í Reykjavík, sem var aðaldriffjöðrin í fyrrnefnda félaginu, mun einnig hafa dregið bláhvítan saumaðan fána að húni á húsi sínu að Skólavörðustíg (á þeim stað þar sem síðar reis hús Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis sem hýsir nú bókaverslun). Þetta var í fyrsta sinn sem bláhvíti fáninn var dreginn að húni á Íslandi. Þorbjörg Sveinsdóttir og bróðursonur hennar, Einar Benediktsson, áttu hugmyndina að þessum sérstaka þjóðfána Íslendinga.

Hið íslenska kvenfélag og Hvítabandið voru fyrstu kvenfélögin í Reykjavík sem tóku pólitíska afstöðu í sjálfstæðisbaráttunni. Í forsvari fyrir Hvítabandið var ung kona, Ólafía Jóhannsdóttir að nafni. Hún var systurdóttir ofannefndrar Þorbjargar Sveinsdóttur og alin upp hjá henni. Heimili þeirra að Skólavörðustíg var ein af miðstöðvum þjóðmálaumræðunnar í landinu og þar drakk Ólafía í sig þjóðernis- og sjálfstæðishugmyndir. Það kemur því ekki á óvart að þessi tvö félög skyldu verða fyrst til að hefja á loft sérstakan fána Íslendinga.

Á þennan atburð var ekki minnst í frásögnum blaðanna utan Dagskrár sem Einar Benediktsson gaf út á árunum 1896-1899 og var fyrsta eiginlega dagblaðið á Íslandi. Um hann og fleira úr sögu félaganna tveggja má hins vegar lesa í bók Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur,Ólafía. Ævisaga Ólafíu Jóhannsdóttur (JPV útgáfa, 2006), og í bók Margrétar Guðmundsdóttur, Aldarspor. Hvítabandið 1895-1995 (Skákprent, 1995). Fundagerðabækur og Ársrit Hins íslenska kvenfélags geyma einnig heimildir um atburðinn en þau eru í vörslu handritadeildar Landsbókasafns Íslands-Háskólabókasafns. Hið sama má segja um fundagerðabækur Hvítabandsins sem geymdar eru á Kvennasögusafni Íslands.

Í Ársriti hins íslenzka kvennfjelags 1897, á bls. 62, er greint stuttlega frá fánagerð félagsins í tilefni þjóðminningarhátíðarinnar: http://www.timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2221551

Í blaðinu Dagskrá er að finna lýsingu á þjóðminningardeginum 3. ágúst 1897: http://www.timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2224969

➜ Eldri kjörgripir