Fréttir

Er landfræðilegur menningararfur í hættu?

Málþing um varðveislu landfræðilegra gagna

Fimmtudaginn 23. september 2010 í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni (Þjóðarbókhlöðu)
Kl. 9:00-12:00

Málþing um varðveislu landfræðilegra gagna haldið í samvinnu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Þjóðskjalasafns Íslands og LÍSU, samtaka um landupplýsingar á Íslandi.

Landfræðileg gögn eru mjög fjölbreytt að formi og gerð, en ábyrgð ýmissa aðila í samfélaginu hvað varðar, skráningu og varðveislu þeirra virðist mörgum óljós. Sú staðreynd veldur því að talin er veruleg hætta á að menningarverðmæti sem felast í þessum gögnum geti farið forgörðum. Þá finnast þau sjónarmið að gildandi lög á þessu sviði tryggi ekki með nægjanlegum hætti varðveislu landfræðilegra gagna í þágu samfélagsins í heild til framtíðar.

Landsbókasafn Íslands, Þjóðskjalasafn Íslands og samtök um landupplýsingar á Íslandi, LÍSA, hafa hafið samstarf um að  leita leiða til þess að styrkja ferla og finna lausnir á varðveislumálum landfræðilegra gagna hér á landi. Með málþinginu er ætlunin að kynna málefnið fyrir þeim sem ætlað er að vinna við varðveislu gagnanna og öðrum sem áhuga hafa á því. Mikilvægt er að auka samstarf á þessu sviði við starfsmenn safnanna til að tryggja öruggari varðveislu og um leið að reyna að bæta aðgengi að upplýsingum.

Dagskrá

Umræðuefni Flytjandi
9:00-9:05 Setning  fundar Elsa Jónsdóttir, formaður LÍSU samtakanna
9:05-9:20 Ávarp Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir, landsbókavörður
9.20-9:40 Landfræðileg gögn á tímamótum Þorvaldur Bragason, Orkustofnun/LÍSU samtökin
9:40-10:00 Varðveisla korta og teikninga á Þjóðskjalasafni Íslands Njörður Sigurðsson, Þjóðskjalasafn Íslands
10:00-10:20 Kortasafn Landsbókasafns  Saga, aðföng og miðlun Jökull Sævarsson, Landsbókasafn
10.20-10:45 Kaffihlé
10.45-11.00 Varðveisla og frágangur landfræðilegra gagna Rannver H. Hannesson, Landsbókasafn
11.00-11.15 Varðveisla rafrænna gagna Júlía Pálmadóttir Sighvats, Þjóðskjalasafn Íslands
11.15-11:30 Landræn upplýsingafræði – lykill að lausn Þorvaldur Bragason, Orkustofnun/LÍSU samtökin
11.30-12:00 Umræður Umræðustjóri, Hrefna Róbertsdóttir, Þjóðskjalasafn
12:00 Fundarlok Fundarstjóri, Þorbjörg Kr. Kjartansdóttir, LÍSU samtökin

Skráning: lisa@skipulag.is fyrir 17. september. Fyrir skipulag fundarins er nauðsynlegt að tilkynna þátttöku !

Aðgangur er ókeypis

Nánari lýsing á erindum

Landfræðileg gögn á tímamótum
Þorvaldur Bragason

Í erindinu er fjallað um form og gerð landfræðilegra gagna, flokka landfræðilegra vefverkefna og upplýsingaaðgengi að slíkum gögnum á Íslandi. Staða nokkurra gagnaflokka er skoðuð og reynt að meta hvað muni gerast ef ekki er brugðist við með markvissum aðgerðum varðandi skráningu og tryggari varðveislu. Aðgengi að upplýsingum þarf að aukast gegnum veflausnir.


Varðveisla korta og teikninga á Þjóðskjalasafni Íslands

Njörður Sigurðsson

Í erindinu verður fjallað um kort og teikningar sem Þjóðskjalasafn Íslands varðveitir, tengsl  þeirra við önnur skjöl og notkun fræðimanna á slíkum heimildum. Þá verður fjallað um aðföng korta og teikninga á Þjóðskjalasafn, frá afhendingarskyldum aðilum og frá einkaaðilum.

Kortasafn Landsbókasafns. Saga, aðföng og miðlun

Jökull Sævarsson

Rakin verður saga kortasafnsins en kort hafa verið hluti safnkosts Landsbókasafns alveg frá stofnun þess árið 1818. Farið verður yfir hvernig aðföngum til safnsins hefur verið háttað og hvaða lög og reglur er stuðst við. Loks er fjallað um miðlunina til notenda og þá aðallega hvernig tölvutæknin hefur verið notuð við hana.  

Varðveisla og frágangur landfræðilegra gagna

Rannver H. Hannesson

Í erindinu verður fjallað um hinar ýmsu hættur sem geta steðjað að sé ekki vel búið að varðveislu landfræðilega gagna.  Farið verður í gegnum helstu form sem slík gögn eru geymd á og hvernig betur er hægt að tryggja framtíðarvarðveislu þeirra.

Varðveisla rafrænna gagna

Júlía Pálmadóttir Sighvats

Í erindinu verður fjallað um hvernig Þjóðskjalasafn Íslands tekur við og varðveitir rafræn gögn. Fjallað verður um á hverju núverandi staðall fyrir rafræn gögn byggir og hvernig varðveisla landfræðilegra gagna kemur þar inn í.

Landræn upplýsingafræði – lykill að lausn

Þorvaldur Bragason

Á vinnumarkaðinn vantar fólk sem hefur samþætta menntun til að koma að vinnu við skráningu, varðveislu, söguritun og vefmiðlun á sviði landfræðilegra (landrænna) gagna. Háskóli Íslands kennir nú þegar  þær grunngreinar sem nefna mætti kjarna í slíku námi (bókasafns- og upplýsingafræði, landfræði og sagnfræði). Í erindinu er rætt um ýmsa möguleika á þessu sviði og nauðsyn þess að hvetja háskólanema til
að huga að aukinni þverfaglegri menntun á þessu sviði.

➜ Fréttasafn