Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Menntaskólinn opnar dyr

Árið 1904 fengu Íslendingar heimastjórn með sérstakan ráðherra. Konungur valdi Hannes Hafstein sem ráðherra. Eitt fyrsta embættisverk hans var að breyta reglugerðinni um Hinn lærða skóla á þann veg að hann opnaði dyr sínar stúlkum og hét jafnframt þar eftir Hinn almenni menntaskóli. Nýja reglugerðin var dagsett 9. september 1904 og sagði þar í 3. grein: „Þegar því verður við komið, skal skólinn vera samskóli, jafnt fyrir stúlkur sem pilta.“

Laufey Valdimarsdóttir settist í skólann þetta haust og lauk þaðan prófi eftir venjulegan námstíma, stúdent 1910. Hún skrifaði minningar sínar um skólavistina í blað nemenda, Skólablaðið, árið 1944. Ljóst er að hún var stundum erfið þótt Laufey hafi jafnan svarað skólabræðrum sínum í sömu mynt. Greinina má nálgast hér að neðan og á vefsíðum Kvennasögusafns Íslands: http://kvennasogusafn.is/index.php?page=minningar-fra-skolaarunum. Þjóðdeild Landsbókasafns Íslands ― Háskólabókasafns geymir Skólablaðið fyrir komandi kynslóðir. Það er okkur hollt að kynnast og íhuga baráttu genginna kynslóða fyrir því sem við teljum sjálfsögð mannréttindi.

Smellið á myndina til að skoða PDF-útgáfu af greininni:

➜ Eldri kjörgripir