Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Kvennasmiðja

24. október 1985 héldu konur útifundi til að vekja athygli á stöðu sinni.

Talið er að um 18 þúsund manns hafi sótt fund á Lækjartorgi, aðallega konur. Þar bar mjög á kröfum dagsins um réttlát laun fyrir vinnu kvenna. Árið 1985 var lokaár kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna og margir aðrir viðburðir voru skipulagðir af hálfu kvennasamtaka. Nefna má að tré voru gróðursett um land allt og hátíðarfundur haldinn á Þingvöllum þann 19. júní, en þá voru einmitt 70 ár liðin frá því konur fengu takmarkaðan kosningarétt og kjörgengi til Alþingis. Haldin var Listahátíð kvenna sem var sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Gefin var út bókin Konur, hvað nú? og rituðu kunnugar konur í hana greinar um löggjöf, menntun, atvinnuþátttöku, laun, forystu, félagslega stöðu, heilbrigðismál og menningarmál.

Þann 24. október var opnuð í seðlabankabyggingunni, sem þá var hálfköruð, mikil sýning kvenna er bar heitið Kvennasmiðja. Kjörorð hennar var: Konan - vinnan - kjörin. Sýningin var opin í vikutíma og þar gafst almenningi kostur á að kynnast atvinnuþátttöku kvenna í þjóðfélaginu. Samnefnt dagblað var gefið út og geymir það miklar upplýsingar.

Smellið á myndina til að nálgast blaðið Kvennasmiðja á tímarit.is.

➜ Eldri kjörgripir