Sýningar

Brot úr baráttunni

Opnuð hefur verið í Þjóðarbókhlöðu sýningin Brot úr baráttunni. Á sýningunni eru rifjaðar upp góðar minningar frá Kvennafrídeginum 24. október 1975 en sá mikli fjöldi kvenna sem tók þátt í Kvennafríinu á Íslandi vakti heimsathygli.

Fjallað er um kvennaframboð tveggja tíma: fyrri kvennaframboðin sem fleyttu m.a. Bríeti Bjarnhéðinsdóttur í bæjarstjórn Reykjavíkur og Ingibjörgu H. Bjarnason á Alþingi og síðari Kvennaframboðin og Kvennalistann sem fjölguðu konum umtalsvert í sveitarstjórnum og einnig á Alþingi. Einnig er fjallað um framboð Vigdísar Finnbogadóttur til embættis forseta Íslands.

Á sýningunni er einnig fjallað um kosningarétt kvenna en á þessu ári eru 95 ár liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt.

Sýningin er staðsett í glerhýsinu í anddyri Þjóðarbókhlöðu og á ganginum inn að veitingastofunni.

Allir eru velkomnir á sýninguna og aðgangur er ókeypis.

Safnið er opið kl. 8:15-22:00 virka daga, 8:15-19:00 á föstudögum, 10:00-17:00 á laugardögum og á sunnudögum er opið kl. 11:00-17:00.

➜ Eldri sýningar