Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Kvennaframboðið 1908

Kvennaframboð kom fram við bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjavík 1908.

Kvenréttindafélag Íslands boðaði stjórnir kvenfélaga í Reykjavík til fundar þann 2. nóvember 1907 vegna bæjarstjórnarkosninga sem skyldi halda í janúar 1908. Samkvæmt nýjum lögum um bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík höfðu nú eiginkonur kjósenda kosningarétt ásamt ógiftum konum og ekkjum sem greiddu skatt og konum var mikið í mun að nota rétt sinn sem best. Á fundinum var ákveðið að kvenfélögin skyldu bera fram sérstakan lista við kosningarnar. Hvert félag skyldi tilnefna eina konu eða fleiri til framboðs. Kvennalistann skipuðu þær Katrín Magnússon, formaður Hins íslenska kvenfélags, Þórunn Jónassen, formaður Thorvaldsensfélagsins, Bríet Bjarnhéðinsdóttir, formaður Kvenréttindafélags Íslands, og Guðrún Björnsdóttir, félagi í Kvenréttindafélagi Íslands. Listinn hlaut langflest atkvæðin í kosningunum, eða tæp 22% atkvæða, og kom öllum fjórum frambjóðendunum að.

Konurnar unnu feykivel fyrir kosningarnar. Þær opnuðu kosningaskrifstofu og komu á hverfanefndum sem ætlað var að heimsækja hverja einustu atkvæðisbæra konu í bænum og fá hana til að nýta rétt sinn og kjósa konur. Landsbókasafn varðveitir plakat frá kvennaframboðinu sem límt var á auða veggi í bænum og auglýsir framboðið og skorar á konur að kjósa kvennalistann. Plakatið er varðveitt með öðru prentefni í safninu og þar er að finna marga dýrmæta prentgripi sem tengjast stjórnmálastarfi í landinu.

Hér má sjá plakatið frá kvennaframboðinu 1908 (smellið til að skoða stærri mynd):

Hér má lesa nánar um kvennalistana hjá Kvennasögusafni Íslands.

➜ Eldri kjörgripir