Fréttir

Frá afhendingu Hagnýtingarverðlauna

Hagnýtingarverðlaun Háskóla Íslands voru afhent í tólfta sinn á Nýsköpunarmessu síðasta föstudag. Vefurinn Handrit.is sem er samstarfsverkefni Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Árnasafns í Kaupmannahöfn, hlaut fyrstu verðlaun. Önnur verðlaun fengu Björn Agnarsson og Kristján Leósson fyrir nýja tækni til flúorljómunarrannsókna á lifandi frumum og þriðju verðlaun hlaut Auður Hauksdóttir fyrir vefinn frasar.net, orðtök á dönsku og íslensku með skýringum.

Á myndinni má sjá háskólarektor, Kristínu Ingólfsdóttur ásamt formanni dómnefndar, Rögnvaldi Ólafssyni, og viðtakendur verðlaunanna: Örn Hrafnkelsson, forstöðumaður handritadeildar Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, Björn Agnarsson, doktorsnemi í eðlisfræði, Auður Hauksdóttir, dósent í dönsku, Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Ingibjörg Sverrisdóttir, landsbókavörður.

➜ Fréttasafn