Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Beinlausir fuglar, whiskey og champagnepúns

í Nýrri matreiðslubók

Desember er sá mánuður ársins sem myrkastur er en jafnframt sá sem ber með sér aukna birtu og lengingu dags. Frá fornu fari hafa menn gert sér glaðan dag af þessu tilefni og hert sig í áti og drykkju. Það er alltaf fagnaðarefni þegar nýjar matreiðslubækur eru gefnar út sem auðvelda mönnum matseld og bruggun góðra veiga og hefur sú sem nú er kjörgripur mánaðarins eflaust komið sér vel þegar hún kom út og aldrei að vita nema hún geti enn komið í góðar þarfir.

Þóra Andrea Nikólína Jónsdóttir sendi frá sér matreiðslubók sem margan sælkerann mun gleðja með uppskriftum að veislutertum, hátíðarsteikum og ídýfum svo fátt eitt sé nefnt. Í bókinni eru einnig uppskriftir að drykkjum eins og whiskey (írskt brennivín), biskupi og páfa og nákvæmar leiðbeiningar um ölgjörð. En fleira má finna í bókinni eins og Þóra segir: „Auk þess sem jeg þá þannig hefi bent mönnum á ráð til að gæða sjer með mat, þá hef jeg líka látið fylgja vísbendingu um framreiðslu matar, einnig um að lita föt, þvo fatnað og annað sem að þesskonar efni lítur ... sem vonlegt er, „þar maðurinn lifir ekki af einu saman brauði“ ... “Svo sendi jeg þessa bók frá mjer í þeirri von að hún geti leiðbeint þeim, sem hún er ætluð, en það eru allar konur, sem um matreiðslu eiga að annast, til þeirrar nýtni og meðferðar á mat, sem bezt og hæfilegust er““.

Þóra gaf bók sína, Ný matreiðslubók ásamt ávísun um litun, þvott o.fl., út á Akureyri 1858, en hún var önnur í röð prentaðra íslenskra matreiðslubóka. Sú fyrsta var Einfalt matreiðslukver fyrir heldri manna húsfreyjur sem kom út árið 1800.

Þóra var fædd í Danmörku 1813, dóttir séra Jóns Jónssonar helsingja og danskrar konu hans, Helenu Jóhönnu Andrésdóttur Olsen. Fjölskyldan flutti til Íslands 1824 og settist að í Möðrufelli, þar sem Þóra ólst upp. Hún lést árið 1861.

Í matreiðslubók Þóru eru fjölmargar forvitnilegar uppskriftir, m.a. eftirfarandi uppskrift að írsku Whiskeyi:

Whiskey (írskt brennivín)

Í ½ pott af sjóðandi vatni eru látin 2 lóð af góðu tegrasi. Þetta skal látið standa á glóðarkeri til þess það verði sem sterkast. Að því búnu er það síað í borðdúkshorni ofan í 2 pd af sykri, sem áður er búið að kreista lög úr tveimur sítrónum í. Þegar búið er að láta tevatnið saman við, skal hella 3 flöskum af Rínarvíni saman við; setja þetta síðan yfir glæður og láta verða sjóðandi heitt. Þetta á að bera heitt á borð í glösum.

Smellið á myndina til að skoða bókina á vefnum bækur.is:

➜ Eldri kjörgripir