Fréttir

Bækur.is opnar í dag

Í dag verður formlega opnaður nýr vefur Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, bækur.is, þar sem hægt er að skoða stafrænar endurgerðir gamalla íslenskra bóka. Nú eru í safninu tæplega 50 titlar, þar á meðal stór fjölbindaverk á borð við Lovsamling for Island frá 1853 og Íslenskt fornbréfasafn frá 1857 sem ætla má að margir muni taka fagnandi. Hugmyndin er að á vefnum muni birtast með tíð og tíma allar íslenskar bækur útgefnar fyrir 1870 í stafrænni endurgerð.

Markmiðið með þessum nýja vef er þríþætt:

  • Miðlun íslenskrar menningar og að gera útgefið íslenskt efni aðgengilegt á veraldarvefnum.
  • Aukin þjónusta við notendur hvar og hvenær sem er.
  • Forvarsla þeirra rita sem fara á vefinn og trygg langtímavarðveisla, með því að draga úr eftirspurn eftir frumeintökunum.

Þar sem um nýjan vef er að ræða þá fögnum við öllum ábendingum og athugasemdum um hvernig hægt er að gera hann betri. Hægt er að koma þeim á framfæri með því að senda tölvupóst á netfangið vefumsjon@bok.hi.is. Við vonumst til þess að notendur muni taka þessum nýja vef opnum örmum líkt og fyrri vefjum safnsins með stafrænum endurgerðum tímarita og handrita.

➜ Fréttasafn