Fréttir

Á FERLI

Sýning á verkum Ástu Ólafsdóttur

Sýning Ástu Ólafsdóttur opnar föstudaginn 3. desember kl. 17.00 í Kubbnum, sýningarými myndlistardeildar Listaháskóla Íslands að Laugarnesvegi 91. Sýningin hefur fengið yfirskriftina Á FERLI og spannar hún fjölbreytta myndlistarsköpun Ástu í meira en þrjá áratugi. Að sýningunni standa nemendur úr listfræði við Háskóla Íslands og myndlistanemar úr Listaháskóla Íslands. Í tengslum við sýninguna hafa verk eftir Ástu verið sett upp víðar um borgina; Þjóðarbókhlöðu, Bíó Paradís, Ráðhúsi Reykjavíkur, Borgarbókasafni Reykjavíkur og Strætisvögnum.

Áður en sýningin verður opnuð heldur Jón Proppé listheimspekingur erindi um list Ástu og hefst það kl. 16.00 í fyrirlestrasal Listaháskólans í Laugarnesi og eru allir velkomnir.

Ásta Ólafsdóttir er fædd í Reykjavík 1948. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Jan van Eyck akademíuna í Hollandi. Ásta var einn af frumkvöðlum vídeólistar hér á landi á níunda áratugnum en hefur síðustu ár einkum unnið að skúlptúr og innsetningum. Hún hefur sýnt verk sín á fjölda einkasýninga og ótal samsýningum.

Á sýningunni verður skyggnst inn í glaðværan, ljóðrænan og fjölbreyttan listheim Ástu, í veröld þar sem engum leiðist. Sá tónn sem leikur í gegnum list hennar – hvort sem um ræðir texta, málverk, skúlptúra eða myndbandsverk – ómar af ljúfri vitund um umhverfið, náttúruna og veröldina. Verkin eru ekki bundin af hefð, heldur því sem Ástu finnst hún verða að tjá hverju sinni. Tilfinningamál Ástu sprettur úr einlægri og glaðværri sýn hennar á veröldina, veröld sem á sér ekki takmörk við landsteina eða heimsálfur, hún leitar út fyrir himinhvolfið. Verk hennar fjalla um tímann, vináttuna og samskipti hennar við veröldina í kringum sig, fortíð, nútið, framtíð. Þau endurspegla hana.

Sýningin er unnin af nemendum á námskeiðinu Sýningagerð og sýningastjórnun undir leiðsögn Aðalheiðar L. Guðmundsdóttur. Sýningin verður opin alla daga milli kl. 13.00 og 16.00 og stendur frá 3. til 13. desember 2010.

➜ Fréttasafn