Fréttir

Styrkur frá Þjóðhátíðarsjóði

Nú er nýlokið síðustu úthlutun Þjóðhátíðarsjóðs og hlaut safnið 600.000 kr styrk í rannsóknir, greiningu og skráningu á handritasafni Jóns Sigurðssonar. Eins og allir vita verður tveggja alda afmæli Jóns minnst á næsta ári og er ætlunin að gera handritasafn hans og útgefin rit aðgengileg á vefnum af því tilefni.

Jón var einn ötulasti handritasafnari Íslands og safn hans sem varðveitt er í Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni er gríðarmikið að vöxtum, eða rúmlega 1300 handrit. Meðal þeirra dýrgripa sem leynast í safninu er eiginhandarhandrit Hallgríms Péturssonar að Passíusálmunum frá 1659.

Eina skráin sem til er yfir þetta safn kom út á prenti fyrir 70 árum og hefur lengi verið ófáanleg. Nú stendur til að skrá allt safnið í samræmi við nútímakröfur og gera aðgengilegt á vefnum handrit.is auk þess sem afrakstur verkefnisins verður kynntur á vefnum jonsigurdsson.is.

➜ Fréttasafn