Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Anarkismi í boði Vestur-Íslendinga

Fjöldi Íslendinga flutti til Vesturheims á síðustu áratugum 19. aldar og kynntist samfélögum sem voru gerólík hinu íslenska. Þeir kynntust nýjum siðum og samfélagsumræðu sem sprottin var úr kynja- og stéttabaráttu iðnaðarsamfélags sem enn hafði ekki skotið föstum rótum á Íslandi. Ritsmíðar og öflug útgáfustarfsemi hefur löngum fylgt Íslendingum og hún var mikil meðal þeirra sem fluttu til Kanada. Þaðan bárust blöð, tímarit og bækur á íslensku sem gegndu mikilvægu hlutverki í mótun samfélagsvitundar Íslendinga á þessum árum og raunar fram á 20. öld. Þekkt eru tímaritin Baldur, Freyja, Heimskringla, Lögberg, Lísing og ýmis kristileg tímarit. Jafnaðarmannafélag Íslendinga í Winnipeg gaf út bókina Vatnsþróin eftir Edward Bellamy árið 1902 en rit Gests Pálssonar voru gefin út þar vestra og margt góðra bóka.

Vestur-Íslendingar voru samfélagslega meðvitaðir og virkir í stjórnmálum. Það er athyglisvert sem Dr. Catherine Lyle Cleverdon segir um upphaf kvenréttindahreyfingar í Kanada í bók sinni, The Women Suffrage Movement in Canada, en þar segir hún: „Hreyfingin í Manitoba hófst snemma; tildrögin má rekja til fyrstu ára síðasta tugs nítjándu aldar; þá stofnuðu nokkrar íslenskar konur fyrsta kvenréttindafélagið í fylkinu Manitoba, og reyndar hið fyrsta í öllu Vesturlandi Kanada.“ Margrét Jónsdóttir Benedictsson var meðal þessara brautryðjenda kvenfrelsisbaráttu í Kanada en hún var ritstjóri femíníska tímaritsins Freyju sem kom út 1898-1910. Freyja var eina tímarit femínista í Kanada á þessum tíma. Margrét skrifaði mikið af femínískum greinum, samdi ljóð og þýddi sögur í tímaritið. Hún birti einnig þýðingar sínar í Almanak, sem gefið var út í Selkirk, en í því birtust þýðingar hennar á femínískum smásögum og grein um anarkisma sem er meðal fyrstu greina á íslensku um þá stjórnmálastefnu. Greinina má finna hér að neðan á bls. 47 í kjörgrip janúarmánaðar.

Ævisaga Margrétar J. Benedictsson, Fyrsti vestur-íslenski femínistinn, eftir Björn Jónsson, var gefin út árið 2007.

Smellið á myndina til að skoða kjörgrip janúarmánaðar á vefnum Tímarit.is:

➜ Eldri kjörgripir