Sýningar

Sveppir, silfurskottur og fleira

í bókasafni Einars Benediktssonar

Opnuð hefur verið í Þjóðarbókhlöðu, fyrstu hæð, sýning á bókum úr bókasafni Einars Benediktssonar skálds og ritstjóra (1864-1940) en á þessu ári hefur verið unnið að hreinsun bókanna og viðgerðum á þeim í forvörslustofu Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Bækurnar voru margar hverjar afar illa farnar en þær höfðu orðið fyrir miklum rakaskemmdum skömmu áður en Einar fluttist með þær til Herdísarvíkur. Auk þess er bersýnilegt að mýs hafa komist í bókakostinn og gengið nokkuð nærri sumum bókanna. Einnig má sjá ummerki eftir veggjatítlur, sem hafa borað sig gegnum þykk bókaspjöld og inn í bækur, og silfurskottur sem hafa gætt sér á bókarkápum.

Við rannsókn sveppafræðings á myglusveppum í bókunum komu í ljós a.m.k. þrjár sveppategundir, þar af ein sem ekki hefur fundist áður á Íslandi.

Á sýningunni eru auk hreinsaðra og viðgerðra bóka sýnishorn af þeim aðskotahlutum og lífræna úrgangi sem fannst í bókunum og einnig eru þar sýnishorn af bókum eins og þær litu út áður en viðgerðirnar hófust.

Einar Benediktsson gaf Háskóla Íslands jörðina Herdísarvík ásamt bókasafni sínu og húsgögnum, í minningu föður síns. Bækurnar voru ekki fluttar í Háskólabókasafn fyrr en árið 1950 og voru hafðar í geymslu þar til safnið flutti í Þjóðarbókhlöðu árið 1994. Bækurnar eru nær einvörðungu á erlendum tungum og meginhluti þeirra er prentaður fyrir 1850, mjög margar á 17. og 18. öld og nokkrar á 16. öld.

➜ Eldri sýningar