Kjörgripur mánaðarins

Kjörgripur

Drottning Lovísa, með brjóstskildi

Fyrir nokkru komu óvenjulegir prentgripir í ljós í Landsbókasafni er forvörður safnsins tók til handargagns nokkurs konar veski úr skinni sem talið er hafa ratað í safnið fyrir löngu sem umbúðir utan um handrit. Handritið hefur verið fjarlægt á sínum tíma og því fenginn annar umbúnaður en þessu ómerkta „bandi" haldið til haga. Við nánari skoðun kom forvörðurinn auga á myndir á pappírsfóðri sem límt var inn í veskið og í vasa, og varð úr að hann leysti fóðrið upp, safnaði brotunum saman og gerði við eftir kúnstarinnar reglum. Þá sást að þetta voru þrjár litaðar tréskurðarmyndir, annars vegar stök mynd sem sýnir Friðrik V., konung Íslands 1746-66, hins vegar samstæðar myndir, önnur af Friðriki V., hin af Lovísu drottningu.

Það er síðastnefnda myndin sem við höfum valið sem safngrip mánaðarins að þessu sinni. Á henni stendur eftirfarandi texti á íslensku:

Drottníng Lovísa, med Brióst-Skyllde. Drotning til Danmerkur og Noregs, Vinda og Gauta, Arfa-Princessa til Eng-
lands, Frankarijkis og Irlands, Curfyrstaleg Princessa til Brwnsvík-Lyneborgar,
Hertug-inna í Slesvík, Holstein, Stormaren og Ditmersken, Greifa-inna
til Oldenborg og Delmenhorst, etc. etc. etc.
Fœdd þann 18 Decembr. 1724. Gipt þann 11 Dec. 1743. Øndud þann 19 Dec. 1751.
Lifande Lijkíng hier Lovísœ Drotníngar
(Lijsande sœtt af sier, siaalf medan lijfs Hwn var)
Siaa þu nw sveipada! sinne í Purpur-Dragt,
Enn hvør kann afmaala, ut-valldra aa himnum Prakt?
___________________________________________________________________________
Kaupenhafn, þrickt og er til kaups hiaa T. L. Borup, buande í stóra Helliggeistes Strœte.

Lovísa drottning var ensk að uppruna, dóttir Georgs II. konungs og Karólínu Vilhelmínu. Hún þótti heillandi kona og er henni lýst svo að hún hafi geislað af lífsgleði, haft gaman af að dansa, hlusta á tónlist og horfa á leiksýningar. Miklar vonir voru bundnar við hana og því var sorgin mikil við hirðina og í ríkinu öllu er hún féll frá í blóma lífsins.

Thomas Larsen Borup rak prentsmiðju í Kaupmannahöfn frá 1756 til 1770 og var ekki síst þekktur fyrir útgáfu á einblöðungum með tréskurðarmyndum, þ. á m. kistuprenti, „kisteblade" eða „kistebilleder" á dönsku, sem var gjarnan fest inn á kistulok og kom í ljós þegar kistan var opnuð. Ekki er vitað hvaða Íslendingur eða Íslendingar komu að þessari útgáfu. Þeir Halldór Jakobsson, sem síðar varð sýslumaður í Strandasýslu, og Jón Ólafsson varalög­maður koma upp í hugann, þar sem báðir létu prenta kvæði til Friðriks V. hjá Borup, en aðrir koma vissulega til greina.

Drottning Lovísa, með brjóstskildi er fágætur prentgripur. Fyrir utan eintak Landsbókasafns er aðeins eitt eintak þekkt sem konunglega bókasafnið í Kaupmannahöfn festi kaup á í upphafi 20. aldar. Það eintak er óheilt, vantar á það neðsta hlutann (vísuna og prentsögn­ina). Er það varðveitt með öðrum gersemum í myndadeild konungsbókhlöðu þar sem fagurlega er um það búið, og var nýlega (2008) birt mynd af því á netinu í Den Nationale Billedbase.

[ smellið til að fá stærri mynd ]

<< Eldri kjörgripir

➜ Eldri kjörgripir