Fréttir

Galdrakverið endurútgefið

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn hefur endurprentað Galdrakver – ráð til varnar gegn illum öflum þessa og annars heims. Galdrakverið sem var gefið fyrst út árið 2004 í tilefni af tíu ára afmæli safnsins hefur að geyma ljósprent af einu yngsta skinnhandriti sem varðveist hefur, en það er frá því um 1670. Handritið, Lbs 143 8vo, er eitt mjög fárra galdrahandrita sem varðveist hafa frá sjálfri galdraöldinni.

Með ljósprentinu af skinnhandritinu fylgir bók sem inniheldur stafrétta útgáfu þess og texta á nútímastafsetningu. Lesendum ætti því að vera auðvelt að afla sér þess fróðleiks sem handritið hefur að geyma. Textinn er ennfremur þýddur á dönsku, ensku og þýsku.

Bókin hefur einungis að geyma hvítagaldur, en galdri var að jafnaði skipt í tvennt - hvítigaldur var kölluð sú iðja sem menn stunduðu til lækninga og varnar ásóknum ýmissa afla, þessa heims og annars, en svartigaldur það sem menn ástunduðu öðrum til ills, bæði mönnum og skepnum.

Í bókinni er meðal annars að finna himnabréf, bréf sem talin voru hafa fallið frá Guði eða Jesú af himnum ofan og geta varnað mönnum frá ýmsu illu, þar á meðal bjargað konum í barnsnauð; blóðstemmur auk annarra lesninga, kvæði sem fara átti með til varnar blóðmissi og voru mikið notuð fyrr á öldum; og galdrastafi, sem teikna átti upp með sérstökum aðferðum til að verjast ýmsum öflum. – Frægasti galdrastafurinn er án efa ægishjálmurinn, sem Björk Guðmundsdóttir hefur notað sem fyrirmynd að húðflúri á handleggnum á sér, og Strandasýsla hefur gert að opinberu merki sínu.

Ögmundur Helgason (1944-2006) fyrrv. forstöðumaður handritadeildar Landsbókasafns bjó handritið undir prentun og  gerði bæði stafrétta útgáfu og texta með nútímastafsetningu.

➜ Fréttasafn