Sýningar

Málþing og sýning um búnaðarskólann í Ólafsdal

í Þjóðarbókhlöðu

sunnudaginn 16. janúar 2011

Sunnudaginn 16. janúar sl. var haldið málþing um búnaðarskólann í Ólafsdal og opnuð sýning um skólann sem var fyrsti búnaðarskóli á Íslandi, stofnaður árið 1880. Að loknu ávarpi Ingibjargar Steinunnar Sverrisdóttur landsbókavarðar setti Rögnvaldur Guðmundsson, formaður Ólafsdalsfélagsins, málþingið og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir sagnfræðingur á Handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns sagði frá sýningunni. Að því búnu ávarpaði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra málþingið og opnaði sýninguna. Eftir að gestir höfðu skoðað sýninguna flutti Sigríður Hjördís fyrirlestur sinn Vinna kvenna í Ólafsdal en hún hefur undanfarna mánuði unnið að flokkun bréfa- og skjalasafns Torfa Bjarnasonar í Ólafsdal. Að loknum fyrirlestri Sigríðar ræddi Bjarni Guðmundsson prófessor og forstöðumaður Landbúnaðarsafns Íslands á Hvanneyri um Grasgrónar minjar og gamalt járn. Málþinginu lauk síðan með fyrirlestri Guðrúnar Hallgrímsdóttur matvælaverkfræðings Ólafsdalur – nýsköpunarsetur 21. aldar.

Búnaðarskólinn í Ólafsdal

Þegar skólinn í Ólafsdal var settur í fyrsta sinn, þann 1. júní 1880, hófu fimm ungir menn nám í fyrsta búnaðarskóla Íslands. Skólinn var stofnaður að frumkvæði Torfa Bjarnasonar og má segja að skólinn hafi þróast upp úr hugsjón hans um stofnun og rekstur fyrirmyndarbús. Torfi var skólastjóri öll árin sem skólinn starfaði. Eiginkona Torfa, Guðlaug Zakaríasdóttir, sá um alla matargerð og tóvinnu og var eftirsótt að koma ungum stúlkum í læri til hennar en hún kenndi fatasaum og skatteringu (útsaum).

Tilgangur skólans var að kenna jarðrækt – verklega og bóklega og var námstíminn tvö ár. Lögð var áhersla á að kenna notkun hestaverkfæra við hin ýmsu jarðræktarstörf og heyskap og skyldu nemendur aðstoða við smíði verkfæranna. Á veturna var m.a. bókleg kennsla í reikningi og efnafræði, grasa- og jarðræktarfræði, hagfræði og „uppdráttarlist“. Einnig húsdýrafræði og eðlisfræði auk þess sem nemendur gengu til búverka og skrifuðu fyrirlestra kennarans.

Alls innrituðust 154 nemendur í skólann á starfstíma hans, árin 1880-1907, og komu þeir alls staðar að af landinu. Heimkomnir voru Ólafsdalssveinar iðnir við að breiða út það sem þeir höfðu lært og margir þeirra tóku með sér verkfæri sem þeir nýttu til þess að útbreiða nýja verkkunnáttu. Þá voru þeir langflestir áberandi í sínu samfélagi, stóðu að stofnun félaga eins og búnaðar-, jarðræktar-, lestrar- og framfarafélaga og gerðust margir hverjir virkir í sveitarstjórnum, voru oddvitar, hreppsstjórar, bæjarfulltrúar, sýslunefndar- og alþingismenn.

Sýningin er samstarfsverkefni Ólafsdalsfélagsins og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns auk þess sem fjölmargar stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök veittu Ólafsdalsfélaginu styrki til sýningarhaldsins.

➜ Eldri sýningar